152. löggjafarþing — 19. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Samfylkingin vill sannarlega hefja kraftmikla sókn í loftslagsmálum, sókn sem jafnast á við stærstu samfélagsverkefni 20. aldarinnar, raflýsingu, hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega. Við erum hins vegar mjög meðvituð um að slíkar aðgerðir geta aukið ójöfnuð og ófrið í samfélaginu, sé ekki vandað til verka. Ef fólk sem býr við verstu kjörin þarf að taka á sig mjög miklar byrðar mun það á endanum leiða til þess að andstaða verður við nauðsynlegar aðgerðir. Það verður til þess að við náum ekki árangri í þessum mikilvæga málaflokki. Því er afar mikilvægt að hugmyndafræði jafnaðarmanna ráði för þegar ráðist er í aðgerðir af þessum toga. Þó að góður hugur fylgi þessu máli teljum við að tillögum sem þessari, sem fela í sér miklar álögur á venjulegt fólk án tillits til efnahags, verði að fylgja mótvægisaðgerðir, t.d. grænar ávísanir, eins og þekkjast annars staðar á Norðurlöndum. Við í Samfylkingunni munum því ekki greiða atkvæði.