152. löggjafarþing — 19. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Hér er þessi tillaga sem fjallar um að ívilnanir er varða tengiltvinnbíla verði framlengdar til loka árs 2022, eins og reglurnar hafa verið til þeirra áramóta sem senn ganga í garð. Ég fór ítarlega yfir það í ræðu hér rétt áðan hvaða áhrif ég tel að muni hljótast af þeirri breytingu sem hér er að verða, en það má ná því saman með því að segja að með þessari aðgerð, að falla frá þessum ívilnunum tengiltvinnbíla og láta 100% rafbíla eingöngu njóta þeirra, er verið að hægja á og jafnvel taka skref aftur á bak hvað orkuskipti í samgöngum varðar, fólksbílaflotann. Ég held að það væri skynsamlegt að leyfa þessu fyrirkomulagi að lifa eitt ár í viðbót og viðhalda þeirri brú sem þeir sem best þekkja til á þessum markaði, Bílgreinasambandið og aðrir, telja nauðsynlega til að framleiðsla bíla og tækniþróun hafi náð okkur á þann stað að við getum með góðu móti að fullu farið yfir í 100% rafbílana.