152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir.

[15:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka spurningarnar. Þær eru mjög mikilvægar varðandi þá stöðu sem við erum í í faraldrinum. Þegar ég tala um stöðuna þá hefur hún verið að breytast með tilliti til nýs afbrigðis sem hefur mun meiri smithæfni. Af því að við horfum á spálíkön og reynum að sjá fyrir hvert álagið getur verið á heilbrigðiskerfið þá er það sannarlega mikið. Til að kjarna það hver staðan er þá er það þannig, á tímabilinu 5.–12. janúar þegar við kynnum þessar nýjustu tillögur og reglur, að það koma þrjú minnisblöð frá sóttvarnalækni sem taka breytingum eftir því sem líður á (Gripið fram í.) og við verðum ávallt að meta þetta. Þar voru þrjár tillögur; óbreytt, herða takmarkanir eða jafnvel í takmarkaðan tíma að fara í lokanir. (Forseti hringir.) Þá metum við þetta út frá tilefni og nauðsyn, meðalhófi og jafnræði. Það er alltaf það sem okkur ber skylda til að gera. (Forseti hringir.) En frumskyldan verður alltaf sú sama, og við megum ekki láta reglurnar verða yfirsterkari markmiðunum að því leyti, þ.e. að verja líf og heilsu og sjá til þess (Forseti hringir.) að heilbrigðiskerfið sé hvern dag í stakk búið til að takast á við ástandið.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn á ræðutíma.)