152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

umhverfisáhrif kísilvers í Helguvík.

[15:41]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar svar. Hún nefnir ívilnanir og að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélaginu. Vissulega er skipulagsvaldið hjá sveitarfélaginu en við erum að horfa á mistök fyrri ára sem áttu sér stað á sínum tíma þegar verksmiðjunni var í raun og veru gefið leyfi, ekki af sveitarfélaginu, heldur gefið starfsleyfi sem kom ekki frá sveitarfélaginu heldur frá Umhverfisstofnun í framhaldi af mati á umhverfisáhrifum sem Skipulagsstofnun hafði þá gefið út. Á þeim tíma voru gerðir fjárfestingarsamningar sem hjálpuðu til við að þessi verksmiðja yrði að veruleika. Þeir voru frá ríkinu sem ívilnun til þessa fyrirtækis þannig að sveitarfélagið eitt getur í sjálfu sér ekki borið ábyrgð á þessum vandamálum þó að það hafi verið þátttakandi í þeim. Ég segi hér: Alþingi skuldar Suðurnesjamönnum að vinda ofan af þessu.