152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

raforka til garðyrkjubænda.

[15:44]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Um mitt ár 2018 skipaði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra starfshóp sem hafði það að markmiði að taka til frekari skoðunar raforkumálefni garðyrkjubænda. Starfshópnum var ætlað að fara almennt yfir þróun raforkukostnaðar garðyrkjubænda og greina tækifæri til þróunar og nýsköpunar innan atvinnugreinarinnar. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til ráðuneytisins um mitt ár 2019 en það virðist lítið hafa skilað sér í kjölfarið á því. Landbúnaðurinn spilar mikilvægt og margþætt hlutverk í íslensku samfélagi en er að mörgu leyti vannýtt auðlind. Mikilvægi landbúnaðarins virðist hins vegar ekki endurspeglast í stuðningi við greinina eða starfsumhverfi hennar. Þetta á m.a. við hjá garðyrkjubændum en þungt rekstrarumhverfi þeirra gerir þeim erfitt fyrir. Hár rafmagnskostnaður er óumflýjanlegur fylgifiskur framleiðslu á ávöxtum og grænmeti. Garðyrkjubændur berjast oft í bökkum við að mæta miklum dreifikostnaði á raforku og það er mikilvægt að við stöndum vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi með dyggum stuðningi við íslenska matvælaframleiðslu, sama í hverju hún felst. Meðal þeirra aðgerða sem við verðum að fara í er að jafna stöðu garðyrkjubænda óháð staðsetningu. Það er því augljóst að við þurfum að byrja á því að stuðla að meiri fyrirsjáanleika í raforkuverði. Með þessu er hægt að standa vörð um íslenska garðyrkjubændur og innlenda matvælaframleiðslu. Þannig tel ég að við tryggjum frjóan jarðveg fyrir heila starfsstétt til að vaxa og dafna.

Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra landbúnaðarmála er: Er vinna hafin við að bæta fyrirsjáanleika í raforkuverði til að einfalda garðyrkjubændum áætlunargerð og framleiðslu á afurðum sínum? Hver er staðan á framfylgd þeirra tillagna sem lagðar voru í hendur ráðherra eftir vinnu starfshópsins? Ef vinna er ekki hafin er spurning mín: Hvenær megum við búast við því að ráðherra hefji og jafnvel klári þá vinnu sem lagt er upp með í skýrslu starfshópsins?