152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

um fundarstjórn.

[15:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir að hafa náðarsamlegast upplýst þingið um að hæstv. fjármálaráðherra er ekki einu sinni á landinu þegar eins mikilvægt mál er til umræðu og við erum með hér, né á landinu þegar verið er að takast á við risastór mál er varðar efnahag almennings og fyrirtækja. En ég velti fyrir mér hvort hæstv. fjármálaráðherra er í embættiserindum erlendis eða hvort hann er í fríi, hvort við getum líka fengið hæstv. forseta til þess að upplýsa þingið um það. Af því að við eigum, held ég, rétt á að vita hvort það geti verið að hæstv. fjármálaráðherra, sem tók mjög takmarkað þátt í umræðu um fjárlög hér fyrir jól og milli jóla og nýárs, vegna þess að hann var Covid-smitaður, telji Alþingi Íslendinga bara vera svo ómerkilegan stað að hann þurfi ekki að mæta hingað til að ræða við þingmenn þjóðarinnar og fulltrúa almennings hér innan húss.