152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

um fundarstjórn.

[16:00]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sem hélt að landið væri að rísa og þingstörfin að batna en svona byrjar nýja árið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við öll höfum það í huga, sem höfum verið kjörin hér inn, að við erum í þjónustu við almenning og okkur ber að deila kjörum með þeim sem búa í landinu. Við sjáum það vel, t.d. á umfjöllun frá Bretlandi, hvaða áhrif það hefur þegar stjórnmálamenn sinna því ekki með sama hætti og almenningi er gert að gera. Nú er ég ekki að halda því fram að það sé tilvikið núna en ég held að við ættum samt að horfa út fyrir strendur landsins sem víti til varnaðar. Það er ósköp einfaldlega þannig, þó að ráðherrann sé með staðgengil, að ef hann er í langri fjarvist ber honum að kalla inn varaþingmann. Það hlýtur að liggja fyrir hvort um langa eða stutta fjarvist er að ræða — fyrir utan það að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé ekki viðstaddur þegar gerð er krafa um að afgreiða frumvarp á innan við sólarhring.