152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

um fundarstjórn.

[16:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Eins og hv. þm. Bergþór Ólason minntist á þá er fyrsti gjalddaginn liðinn. Ég hefði skilið ef þingið hefði verið kallað saman fyrr en var gert ráð fyrir að þá væri hérna afleysingarráðherra til að svara fyrir frumvarpið, upp á ákveðið skipulag að gera. En núna eftir á þá skil ég það ekki. Það var búið að skipuleggja að þingfundir hæfust 17. janúar. Það er löngu vitað. Það er svo löngu vitað að það er líka löngu vitað að gjalddaginn var 15. janúar. Ef það er svona mikilvægt að klára þetta frumvarp á einum degi, af hverju var þá ekki mikilvægt að klára það fyrir 15. janúar? Hvað segir það um þau fyrirtæki sem eru búin að skrapa saman fjármagni til að greiða þessa gjalddaga, jafnvel taka lán, hver veit? Þau fá ekki endurgreiðslu hvað það varðar. Ég átta mig ekki á þessum skorti á forsjálni (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar. Hún birtist okkur ítrekað, aftur og aftur, þessi skammsýni (Forseti hringir.) að gera ekki ráð fyrir því að þetta sé lengri faraldur en þau hafa alltaf gert ráð fyrir. Þetta frumvarp er dæmi um það.