152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

um fundarstjórn.

[16:04]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Mig langar að rifja upp hvernig ástandið var hérna fyrir áratug þegar rekstur ríkisins var á neyðarstigi nánast allt kjörtímabilið 2009–2013. Þá horfðum við einmitt oft upp á frumvörp gerð að lögum á innan við sólarhring, eins og krafist er af þinginu í dag, en þá mættu ráðherrarnir líka. Það var ekki vegna þess að þá langaði ekki að sóla sig á sundlaugarbakka á suðlægari breiddargráðu eða að taka þátt í einhverjum ráðstefnum erlendis. Nei, það var einfaldlega vegna þess að þeir voru kyrrsettir. Þeim var sagt að mæta. Þeim var sagt að vera hér í sal og bera fram þau mál sem þeir sjálfir bæru ábyrgð á. Nú man ég ekki hvaða stjórnmálakallinn það var sem skrifaði í sjálfsævisögu sinni lýsingu á því þegar hann var kominn hálfa leiðina til Keflavíkur í ráðherrabílnum og fékk símtalið frá Jóhönnu Sigurðardóttur og var sagt að hunskast í hús aftur, það væri atkvæðagreiðsla. (Forseti hringir.) Menn komust ekkert upp með svona þegar neyðarástand var tekið alvarlega. Fjarvera hæstv. fjármálaráðherra bendir til þess að ríkisstjórninni (Forseti hringir.) sé ekki alvara með því neyðarástandi sem okkur á þinginu er gert að starfa eftir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)