152. löggjafarþing — 21. fundur,  17. jan. 2022.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[22:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um viðspyrnustyrki, frestun gjalddaga og framlengingu umsóknarfrests, eins og hér kom fram.

Nefndin fjallaði um málið og fékk gesti á sinn fund. Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að mæta efnahagslegum áhrifum ráðstafana stjórnvalda til að hamla útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveiru. Með frumvarpinu er lagt til að fyrirtækjum í veitingarekstri með meginstarfsemi í flokki II eða III samkvæmt 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma vegna sóttvarnaráðstafana verði veitt heimild til frestunar staðgreiðslu á afdreginni staðgreiðslu af launum og tryggingagjalds á allt að tveimur gjalddögum á tímabilinu 1. janúar til 1. júní 2022. Þá er lagt til að frestur til að sækja um viðspyrnustyrki vegna nóvembermánaðar, samkvæmt lögum um viðspyrnustyrki, verði framlengdur til 1. mars 2022.

Nefndin leggur hér fram breytingartillögu sem varðar gististaði með áfengisveitingum. 1. og 2. gr. frumvarpsins taka samkvæmt efni sínu til veitingastaða með meginstarfsemi flokki II og III samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma. Undir þá flokkun falla umfangslitlir og umfangsmiklir áfengisveitingastaðir.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ýmislegt væri sammerkt með stöðu gististaða í flokki IV samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga, þ.e. gististaðir með áfengisveitingum og þeirra sem falla undir flokk II og III. Undir flokk IV falli ýmsir gististaðir sem gera út á veitingarekstur sem þurftu að sæta takmörkunum. Margir veitingastaðir tengdir gististöðum hafi t.d. þurft að draga verulega úr umfangi eða hætta alfarið við viðburði sem miklu máli skipta fyrir rekstur þeirra, svo sem jólahlaðborð. Því kynni að vera rétt að rýmka gildissvið ákvæðisins og það tæki einnig til þeirra rekstraraðila. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið og leggur til breytingu þess efnis að stöðum sem falla undir flokk IV samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna verði heimiluð frestun á afdreginni staðgreiðslu af launum og tryggingagjaldi.

Gjalddagi og eindagi samkvæmt lögum nr. 141/2020 og fjöldi gjalddaga. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VII við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda og ákvæði til bráðabirgða XI við lög um tryggingagjald var heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að þremur greiðslum af afdreginni staðgreiðslu af launum og staðgreiðslu tryggingagjalds, sem voru á gjalddaga á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna var 15. janúar 2022. Með lögum nr. 141/2020 bættist sams konar heimild við ákvæðin sem kvað á um heimild til frestunar tveggja greiðslna sem voru á gjalddaga 1. janúar til og með 1. desember 2021. Nýr gjalddagi og eindagi þeirra er 17. janúar 2022.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VII við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda og ákvæði til bráðabirgða við lög um tryggingagjald var heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að þremur greiðslum af afdreginni staðgreiðslu af launum og staðgreiðslu tryggingagjalds sem voru á gjalddaga á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslan var 15. janúar 2022. Með lögum bættist við sams konar heimild við ákvæðin sem kvað á um heimild til frestunar tveggja greiðsla sem voru á gjalddaga 1. janúar til og með 1. desember 2021. Nýr gjalddagi og eindagi þeirra er 17. janúar 2022.

Meiri hlutinn leggur til að með sömu skilyrðum og kveðið er á um samkvæmt frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar verði launagreiðendum sem nýttu framangreinda heimild til frestunar gjalddaga heimilað að fresta þeim greiðslum enn frekar þannig að þær dreifist á sex gjalddaga, mánaðarlega frá og með 15. september 2022. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að gjalddagar greiðslna sem frestað er samkvæmt 1. og 2. gr. frumvarpsins eins og það var lagt fram verði hinir sömu, sex talsins í stað fjögurra.

Að auki leggur meiri hlutinn til í samráði við ráðuneytið að það verði gert að skilyrði fyrir heimild til frestunar gjalda samkvæmt 1. og 2. gr. að launagreiðandi starfræki veitingastað sem hafi fengið rekstrarleyfi samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald fyrir 1. desember 2021.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Jóhann Páll Jóhannsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Guðbrandur Einarsson rita undir álitið með fyrirvara sem lýtur að því að málið hafið komið seint fram og nefndinni gefist lítill tími til efnislegrar umfjöllunar.

Undir þetta rita Guðrún Hafsteinsdóttir formaður, Ágúst Bjarni Garðarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, með fyrirvara, Diljá Mist Einarsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Guðbrandur Einarsson, með fyrirvara, Jóhann Páll Jóhannsson, með fyrirvara, og Steinunn Þóra Árnadóttir.