152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[14:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Íslenskt heilbrigðiskerfi er gott. Ég ætla að endurtaka þetta: Íslenskt heilbrigðiskerfi er gott í öllum alþjóðlegum samanburði. Þetta er þekkingar- og þjónustudrifin starfsemi og þar skiptir starfsfólkið auðvitað lykilmáli. Þess vegna skipta starfsaðstæður, kjör, menntun og endurmenntun þessara stétta lykilmáli. En, virðulegur forseti, þrátt fyrir að það sé ýmislegt sem megi bæta og ýmislegt sem megi gera betur þá eigum við það til að tala niður hið frábæra íslenska heilbrigðiskerfi. Það er m.a. gert með orðum eins og hv. þingmaður og málshefjandi notaði hér áðan; undirfjármögnun, vanfjármögnun, og það versta, sveltistefna. Þegar við ræðum um íslenskt heilbrigðiskerfi þá virðist stærsti hluti umræðunnar alltaf fara í þriðja stigs þjónustuna og helst á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægur þáttur í heilbrigðiskerfinu okkar en það er ekki allt heilbrigðiskerfið okkar.

Ég tel, virðulegur forseti, að stóru spurningarnar sem við þurfum að svara núna til framtíðar séu hvernig við hemjum útgjöld í þriðja stigs þjónustunni. Þar eru það, eins og hv. þingmenn hafa komið inn á, öldrun þjóðarinnar, sem er jákvætt viðfangsefni, og ekki síður lífsstílssjúkdómar. Ég er ánægð með að heyra hæstv. ráðherra nefna áðan að lýðheilsa og forvarnir skipti lykilmáli. Þegar við í þessum sal hugsum um fjármögnun heilbrigðiskerfisins til lengri tíma litið hljóta lýðheilsa og aðgerðir hins opinbera til bættrar lýðheilsu að vera algjört forgangsatriði.