152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[14:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í gær ræddi ég við hæstv. forsætisráðherra um hvaða áform væru uppi um að styrkja heilbrigðiskerfið, mikilvæga almannaþjónustu sem var í veikri stöðu fyrir Covid, en faraldurinn hefur svo sannarlega dregið upp enn verri mynd. Því miður fannst mér ekki birtast nein skýr sýn í svari hennar. Ég hlustaði líka spenntur á viðtal við hæstv. heilbrigðisráðherra í Kastljósi fyrir fáeinum dögum og þar var sama uppi á teningnum; vissulega góð fyrirheit en óljóst hver áformin eru. Þau vísa bæði í aukna fjármuni til heilbrigðismála, en ef frá eru dregin beinn kostnaður við Covid, fólksfjölgun, lýðfræðileg þróun, kjara- og vinnutímasamningar og bygging nýs spítala er vandséð að um nokkra aukningu sé að ræða. Það vantar t.d. 2 milljarða í undirliggjandi rekstur spítalaþjónustu í fjárlögum. Einungis sjúkrahúsin tvö, fyrir utan allt hitt, geta með þessu móti aðeins sinnt óbreyttri þjónustu, ekki bætt við hana.

Ríkisstjórnin hefur haft fjögur ár til að átta sig á vandanum og móta skýra stefnu, en því miður hefur umræðan um framtíðarstefnu þessa málaflokks einkennst af ágreiningi á milli einstakra stjórnarflokka. En nýjum heilbrigðisráðherra til uppörvunar þá hefur hann skýran stuðning mikils meiri hluta þjóðarinnar fyrir betur fjármagnaðri opinberri heilbrigðisþjónustu. Það ætti a.m.k. ekki að tefja verkið. En meðal brýnustu forgangsverkefnanna núna er að ráðast í að bæta starfskjör og starfsaðstæður heilbrigðisstarfsfólks, sem er margt örmagna eftir tveggja ára ómanneskjulegt álag. En betri mönnun, þótt hún sé mikilvæg, mun ekki nást fram nema bætt sé kröftuglegar í, annars missum við þetta fólk burtu til annarra starfa.