152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[14:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hafa framtíðarsýn í heilbrigðismálum enda breytist samfélagið á ógnarhraða. Það er öllum ljóst að huga þarf að fjölbreyttum þjónustuúrræðum í heilbrigðisþjónustu á næstu árum og áratugum. Fjölgun eldra fólks er í senn merki um það góða samfélag sem við byggjum og um leið áskorun. Samkvæmt tölum Hagstofunnar mun hlutfall íbúa yfir 67 ára aldri hækka um hartnær 4% á næstu átta árum. Mönnun heilbrigðisþjónustunnar, eins og hér hefur komið fram, er alþjóðlegt viðfangsefni og þar erum við í samkeppni við önnur lönd.

Það er langbrýnast að búa vel að heilbrigðisstarfsfólki, bæði er varðar kjör en ekki síður starfsaðstæður. Við þurfum líka að styrkja enn frekar klínískt starfsnám, bæði á Landspítalanum og á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem og heilsugæslunni. Greiningarfyrirtækið McKinsey sendi nýverið frá sér skýrslu sem sýnir þjónustuþörf Landspítalans í nánustu framtíð. Þar ber hæst langtímaumönnun og hækkandi aldur. Skýrslan gerir grein fyrir ýmsum úrlausnarefnum, ekki síst þegar kemur að þjónustuúrræðum. Þar er átt við endurhæfingu, heimaþjónustu og hjúkrunarrými. En það er líka mikilvægt að við komum upp fjölbreyttum þjónustuíbúðum, bæði að stærð og gerð og helst í nágrenni við hjúkrunarheimili, til að auðvelda fólki lífið og ekki síður til að auðvelda samþættingu í þjónustu og styðja á sama tíma við sjálfstæða búsetu fólks fram eftir aldri.

Hjúkrunarrýmum hefur fjölgað talsvert um allt land sem er mikilvægt þar sem heilbrigðisþjónusta á landsbyggðunum er yfirleitt fyrsta stigs þjónusta, sú þjónusta sem heilsugæslan á að veita. Heilsugæslan sinnir mjög mikilvægu hlutverki og hana þarf að halda áfram að efla. Með því stuðlum við ekki aðeins að betri þjónustu um land allt heldur léttum við sömuleiðis á sjúkrahúsunum sem fá þá meira svigrúm til að sinna þriðja stigs þjónustu, þeirri þjónustu sem þau eiga helst að veita. Það þarf að skoða sérstaklega þjónustu sérgreinalækna á landsbyggðunum. Í ráðherratíð Svandísar Svavarsdóttur var hafin endurskoðun á því fyrirkomulagi í samráði við stjórnendur heilbrigðisstofnana af landsbyggðunum. Mikilvægt er að gera þjónustu sérgreinalækna að nærþjónustu í þeirri merkingu að hana skuli með einhverju móti veita reglulega í heimabyggð, þ.e. á einum til tveimur stöðum í hverju heilbrigðisumdæmi. Það er mín tilfinning að í áskorunum (Forseti hringir.) framtíðarinnar leynist tækifærin til að byggja upp enn betri heilbrigðisþjónustu um land allt.