152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

163. mál
[16:29]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Það er mjög ánægjulegt að sjá að verið sé að taka þar á málum um barnahjónabönd sem, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á, eru stórt vandamál víða um heim. En fólki bara til glöggvunar þá er talið að ein af hverjum fimm konum eða stúlkum í heiminum hafi gengið í hjónaband sem skilgreinist sem barnahjónaband, að í dag séu um 650 milljón konur víða um heim sem hafi gifst allt of ungar.

Mig langar líka að þakka hæstv. ráðherra fyrir að opna á það að skoða fleiri atriði sem tengjast hjúskaparlögunum og langar mig sérstaklega að minnast á að hér á dagskrá er þingmannafrumvarp um breytingar á sömu lögum og það er von mín að í meðhöndlun nefndarinnar geti menn kannski fundið tækifæri til að sameina þessi tvö frumvörp í ein lög, enda tekur þingmannafrumvarpið á mikilvægum atriðum sem eru í hjúskaparlögunum sem mikil þörf er á að taka á, en það fjallar um að auðvelda lögskilnað. Það er nokkuð sem er sannarlega komið til ára sinna eins og annað í lögunum.

Mig langar bara að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma snemma fram með þetta frumvarp. Við munum styðja framgang þess hér á þinginu og vonum að allsherjar- og menntamálanefnd taki þær tillögur sem hér koma og vinni fljótt og vel úr þeim svo við getum sett ný lög sem fyrst.