152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[16:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er tilgangur frumvarpsins m.a. að skilgreina betur lykilhlutverk, skerpa á verkaskiptingu og slíkum atriðum og einmitt að fjalla um almannavarnastigin þrjú, óvissustig, hættustig og neyðarstig, í samræmi við alvarleika neyðarástands sem uppi er hverju sinni og umfang viðbúnaðar og slíkt. Til að beita þessu viðkvæma ákvæði, og hafa heimildir til þess, erum við að tala um einhvers konar almannavarnaástand sem kallar á viðbrögð opinberra aðila; sveitarfélaga, ríkis og náttúrlega viðbragðsaðila. Þrátt fyrir að við séum með mjög öflugt almannavarnateymi, þ.e. allir þeir björgunaraðilar, allir þeir viðbragðsaðilar sem við eigum aðgang að, og hryggjarstykkið í því eru auðvitað sjálfboðaliðasveitir okkar um allt land sem telja á annað hundrað björgunarsveitir og eru til nánast á öllum þéttbýlum svæðum og kannski rúmlega það, þá eru auðvitað svæði sem geta staðið frammi fyrir alvarlegu ástandi af ýmsum orsökum þar sem reynir á að fólk geti verið kallað til starfa við hliðina á þessum viðbragðsaðilum okkar. Við erum jú fámenn þjóð í mjög stóru landi og fámennið getur verið þannig að svæði geta búið að mjög takmörkuðum mannskap. Það er auðvitað alltaf við slíkar aðstæður sem þetta viðkvæma ákvæði á við og það er mikilvægt að við leitum allra leiða til að gera það í sem mestri sátt við verkalýðsfélög og verkalýðshreyfinguna og að við sýnum öll (Forseti hringir.) þann skilning sem þarf beggja vegna borðs til (Forseti hringir.) að geta gripið til slíkra ráðstafana við alvarlegar aðstæður.