152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[16:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að taka til máls í þessu máli. Við vorum með það í allsherjar- og menntamálanefnd og ég var þar á síðasta kjörtímabili en sit þar ekki núna. Ég er ekki sátt við frumvarpið eins og það lítur út núna frekar en þá og ætla í stuttu máli að fara yfir þá punkta sem við vorum að vinna með í nefndinni sem ég tel að núverandi nefndarmenn þurfi að hafa í huga og fá nú eflaust umsagnir þar um. Það er kannski sitt lítið af hverju og af því að innviða- og sveitarstjórnarráðherra situr hér líka þá er rétt að nefna að þetta snýr, eins og hér hefur komið fram, talsvert að sveitarfélögunum líka. Það vantar dálítið að skýra hlutverk. Mín upplifun er sú að verið sé að fjölga þeim sem vinna að þessu sama verkefni og hlutverk hvers og eins sé ekki nægjanlega skýrt. Mín upplifun var alla vega sú að verið væri að auka flækjustigið og setja fleiri saman í hóp. Sveitarfélögin sem og lögreglan gera viðbragðsáætlanir, sveitarfélögin gera þær fyrir sig sjálf og svo er sameiginleg áætlun þar sem þau eiga í tilteknu samstarfi. Mér fannst það ekki skýrt í frumvarpinu hvort lögreglan ætti að gera þessa viðbragðsáætlun fyrir sveitarfélögin og innra starf þeirra. En eins og hér var einmitt rætt áðan þá er það kannski ekki lögreglustjóra eða annarra að fara fram hjá sveitarstjóra og segja starfsmönnum sveitarfélags fyrir verkum. Þannig að mér finnst þurfa að vera skýrari greinarmunur þar á, þ.e. sveitarfélög versus almannavarnanefndir. Þetta er samvinna í samráðsnefndunum, af því að almannavarnanefndir eru jú samráðsnefndir, og oft koma mörg sveitarfélög þar að. En svo hafa sveitarstjórar ekki forræði yfir starfsmönnum annarra sveitarfélaga. Oft á tíðum er það þannig að sjónarmið sveitarfélaga ná miklu lengra fram í tímann en lögreglustjóra. Það er oft samlegð í upphafi einhvers konar ástands en svo hugsa sveitarfélögin kannski lengra fram í tímann og eru jafnvel farin að vinna, eins og við þekkjum, með forsætisráðuneytinu og öðrum, eins og við höfum séð í þeim hamförum sem hafa átt sér stað. Svo er það auðvitað starfsmannafjöldinn, við getum tekið Árborg sem dæmi, 1.000 starfsmenn sem þarf að taka tillit til í viðbragðsáætlun. En síðan er lögreglan á svæðinu kannski með mun færri aðila sín megin. Sveitarfélögin eru kannski ekki endilega að sjá um samhæfingu ólíkra viðbragðsaðila, það er hlutverk lögreglustjórans að gera það og mér finnst þetta ekki vera alveg nógu skýrt.

Þá er það fagleg þekking á áhættugreiningu. Þar myndi ég vilja hvetja sveitarstjórnarráðherra til að huga að styrkingu sveitarfélaganna. Það má velta því fyrir sér hvort það megi, í þessu samhengi, bæta við einhverri grein í frumvarpið um sveitarfélögin af því að þeirra hlutverk er gríðarlega stórt þegar einhvers konar samfélagsleg röskun verður og kannski í langan tíma, eins og við þekkjum með verkefnin sem við stöndum frammi fyrir núna. Til dæmis á Seyðisfirði, verkefni sveitarfélagsins verða í fjöldamörg ár eftir að óvissuástandi eða almannavarnaástandi hefur verið aflétt, þannig að það þarf að efla sveitarfélögin dálítið, finnst mér, í því að sinna sínu hlutverki í þessu efni.

Mig langaði líka að koma inn á að það eigi að leggja niður rannsóknarnefnd almannavarna. Ég er mótfallin því og mér finnst frumvarpið eiginlega rökstyðja það sjálft, það segir beinlínis hér að bara af því að við kláruðum þetta ekki þá ætlum við bara að hætta við þetta. En rökstuðningurinn er alls ekki nægjanlegur. Ég ætla að leyfa mér að rifja það upp að þessi nefnd var sett á laggirnar sem sjálfstæð nefnd og var tryggt að hún starfaði í umboði Alþingis, m.a. til að framkvæmdarvaldið myndi ekki rannsaka eigin aðgerðir. Það má vel vera að gagnrýna megi það að upphaflega hafi ekki verið gerðar nægilega miklar kröfur um hæfni fólks. Við erum nú svo heppin að í því ráði sem situr núna er afskaplega hæft fólk með þekkingu á hamförum og öðru slíku. En það er sannarlega rétt að það eru ekki gerðar neinar kröfur til skipan þessa fólks. Það er eitthvað sem ég tel að mætti sannarlega laga og gera tilteknar kröfur til þeirra sem eiga að sinna þessu gríðarlega mikilvæga verkefni. Við erum með rannsóknarnefnd samgönguslysa sem mætti nýta sem fordæmi í því. En mér finnst að með því að leggja nefndina niður þá sé í rauninni verið að koma í veg fyrir að óháður aðili rannsaki framkvæmd og aðkomu undirstofnana og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Þannig að mér finnst þetta vera skref aftur á bak og ég ræddi það líka síðast þegar þetta mál var hér til umfjöllunar og hélt þessu á lofti af því að mér finnst við aldrei hafa látið reyna á þetta vegna þess að Alþingi hefur aldrei fjármagnað nefndina. Dómsmálaráðherra setti í þetta örlitla aura 2019, sem voru kannski rétt til þess að koma upp aðstöðu fyrir nefndina, en hún hafði í rauninni aldrei færi á því að taka almennilega til starfa. Og svo kemur auðvitað Covid ofan í allt saman, eins og við þekkjum. Í frumvarpinu, í greinargerð um 15.–18. gr., er þetta beinlínis sagt. Um leið er líka sagt: „Fullyrða má að núgildandi fyrirkomulag hefur ekki náð þeim tilgangi sem stefnt var að“, eðlilega ekki þegar nefndin hefur beinlínis aldrei verið fjármögnuð og aldrei fengið að taka til starfa og sinna því sem henni var sannarlega ætlað.

Ég ætla bara brýna það fólk sem situr í allsherjar- og menntamálanefnd að hugsa vel um þetta, sérstaklega út frá því að ekki sé verið að koma í veg fyrir utanaðkomandi rýni. Ég held að hún sé afskaplega mikilvæg. Samkvæmt frumvarpinu eins og það lítur út er það ríkislögreglustjóri sem fer með forræði á rýnifundunum, hefur eftirlit með sjálfum sér og sinnir stofnun og undirstofnunum. Við erum alltaf að tala hér um aukið gegnsæi og eftirlit með ríkisstofnunum þannig að mér finnst þetta skjóta skökku við þrátt fyrir að hér komi margir aðilar að, eins og nefnt er og allt það. Ég vil alla vega brýna fólk í því að skoða þetta mál vel og velta þessum tiltekna fleti upp, hvort nefndarmenn eru sammála því að það hafi í rauninni reynt á þessa nefnd og hvort önnur leið en sú sem hér er lögð til sé betri og að mínu mati heilbrigðari út frá öllu því sem heitir að rýna ekki sjálft sig þegar verið er að vinna svona störfum eins og hér er undir.