152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[17:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að þakka hv. þingmanni fyrir að benda á nokkur atriði sem voru í umræðunni þegar þetta frumvarp kom fram síðast. Varðandi umræðuna um sveitarfélög versus lögreglu hvað það varðar að gera viðbragðsáætlanir og annað þá er sannleikurinn sá að flækjustigið er aðeins meira en þetta. Það er þannig að oft eru mörg sveitarfélög undir einni hættu og stundum er bara eitt sveitarfélag undir ákveðinni hættu. Ég held að það þurfi að vinna mikla vinnu í því að fara í gegnum hvaða viðbragðsáætlanir þurfi að gera, forgangsraða þeim og uppfæra þær sem til eru. Gott dæmi er að viðbragðsáætlun út af Kötlugosi gerði ekki ráð fyrir því að það gætu verið 4.000 erlendir ferðamenn á svæðinu heldur var einungis tilgreindur fjöldi bænda á svæðinu. Það er margt sem þarf að gera þegar kemur að viðbragðsáætlunum og það er mikilvægt að það sé vel skilgreint hver ber ábyrgð á hverju. Þá er kannski hægt að búa til einhverja reglu um að lögreglan sjái um það sem nær yfir mörg sveitarfélög en sveitarfélögin annars.

En það sem ég sakna helst, þegar kemur að viðbragðsáætlunum, er að sérstaklega sé skilgreint fjármagn í þetta. Þar sem hv. þingmaður er einnig formaður fjárlaganefndar langar mig að hvetja til þess að það sé skoðað vel hvernig við getum sett meira fjármagn í gerð viðbragðsáætlana. Það þýðir ekki alltaf að við séum að búa þær til eftir á heldur þurfum við að vera tilbúin áður en hlutirnir gerast.