152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[17:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála þingmanninum um það að við verðum að horfast í augu við það að við þurfum væntanlega að endurskoða allar þessar áætlanir, ekki síst í ljósi loftslagsbreytinga. Það er svo margt sem við stöndum frammi fyrir, það sem aldrei hefur gerst er farið að gerast og á eftir að gerast. Ég held því að það sé öllum til heilla að sveitarfélög verði efld og fái utanaðkomandi aðstoð og jafnvel samhæfingu til að vinna að áhættugreiningu á hverjum stað og gera almennilegar viðbragðsáætlanir.

Ég spurði dómsmálaráðherra um rannsóknarnefndina hér og við vorum sammála um að nefndin eigi að rýna og meta framkvæmdir almannavarna svo að draga megi lærdóm af reynslunni og stuðla þannig að umbótum innan almannavarnakerfisins. Ráðherrann svaraði því þá að með fyrirkomulaginu sé komið í veg fyrir að framkvæmdarvaldið rannsaki eigin aðgerðir eða þeirra aðila sem starfa á ábyrgðarsviði þess. Við getum verið að tala um mjög stóra og alvarlega hluti. Það er eitt að rýna sjálfan sig — formaður þessarar nefndar hefur starfað á hamfarasvæðum erlendis og veit nokkuð um hvað verið er að tala og er sérmenntuð í þessum fræðum. Nefndin er því mjög vel mönnuð en viljum við halda henni áfram eins og ég myndi vilja þyrftum við að gera kröfur um það hvers konar fólk veldist þar inn, ekki bara pólitískir vildarvinir. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt. Ég held að þetta sé gott, það er hægt að gera þetta nákvæmlega eins og við gerum með fjármálaráð. Þar erum við ekki að velja eftir pólitískum línum heldur erum við að fá utanaðkomandi rýni á mikilvægustu störf Alþingis, þ.e. að vinna með fjárheimildirnar. Ég tel að þetta sé líka risastórt mál og við eigum að þora að takast á við verkefnið og leyfa þessari nefnd að taka til starfa og sjá hvort að við erum ekki á réttri leið eins og ég tel að við séum.