152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[17:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram og margar góðar ábendingar sem hafa komið fram og verið viðraðar. Mig langar aðeins til að rifja það upp hvaða breytingar urðu í samfélagi okkar þegar við komum viðbragðsaðilum saman í eina samræmingarstjórnstöð í Skógarhlíðinni fyrir tiltölulega stuttu. Við stigum reyndar skref sem eftir var tekið víða um veröld þar sem við náðum að samræma vinnubrögð og fá alla viðbragðsaðila saman á einn stað. Áður voru starfandi sjö stjórnstöðvar út um borg og bý. Það er hægt að fara aðeins aftur í tímann og rifja upp snjóflóðin fyrir vestan 1995 og hvernig hjólin snerust þá þegar við þurftum að virkja almannavarnakerfið okkar, virkja þar með stjórnstöð sem dagsdaglega var aldrei notuð og það kallaði á mikla erfiðleika í framkvæmd. Þrátt fyrir að við værum með viðbragðsáætlanir og skipulag og eitthvað svona á pappírum og í möppum uppi í hillu þá mátti mikið af þessu læra og kannski varð kveikjan að því einmitt að við settum upp eina samræmda stjórnstöð viðbragðsaðila sem er í vinnu dagsdaglega í þeim verkefnum sem eru hjá viðbragðsaðilum og svo stækkar bara umhverfið eftir því sem fleiri þurfa að koma að og verkefnin verða samhæfðari. Það urðu miklar breytingar í tengslum við þetta.

Í kjölfarið á þessum stóru skrefum sem tókst að stíga í samkomulagi viðbragðsaðila var sett á fót yfirstjórnstöð í Skógarhlíð og síðan rannsóknarnefnd almannavarna. Það vill svo til að ég var á þeim tíma bæði formaður þessarar fyrstu stjórnar samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð og þessarar rannsóknarnefndar almannavarna og það er mikið til í því, sem hér hefur komið fram, að ekki var lagt mikið fjármagn til þessarar rannsóknarnefndar og hún náði þess vegna, jafnvel þrátt fyrir að eftir því væri kallað, ekki almennilega að hefja störf og láta til sín taka. En á þeim sama tíma voru stigin mjög stór skref. Á þessum 15–20 árum hafa verið stigin mjög stór skref í því hvernig við rýnum atburði á þessum vettvangi, hvort sem er í almannavarnaástandi eða ástandi sem nær ekki almannavarnastigi. Það hefur orðið mjög góð þróun í þessu og reynsla sem hefur skilað miklum ávinningi. Til hvers er rýni? Jú, hún er einmitt til þess að læra á veikleika, láta gagnrýnina koma upp á yfirborðið, taka umræðuna og gera breytingar og þróa kerfið til betri vegar.

Ég held að í ljósi þessarar reynslu sé það óþarfi hjá okkur að vera með sérstaka rannsóknarnefnd fyrir almannavarnaástand. Það er einlæglega mitt mat, ekki til þess að forðast það eitthvað sem hér var orðað, að framkvæmdarvaldið væri að rýna sjálft sig. Í framkvæmd er það ekki þannig. Við getum alltaf slegið varnagla við því og gert er ráð fyrir því í þessu frumvarpi að stjórn björgunarmiðstöðvarinnar, sem við ætlum að efla og stækka hér á næstu árum með því að flytja hana í nýtt húsnæði og alla viðbragðsaðila þar saman, geti kallað eftir dýpri rýni, frekari úttekt, sem gerist þá ef ágreiningur er mikill og tilefni er til. Þá eru kallaðir til utanaðkomandi sérfræðingar til að fjalla um þessi mál og rýna og koma þá með tillögur um hvað betur megi fara.

Það er líka gert ráð fyrir því að ráðherra málaflokksins geti brugðist við ef svo ber undir og þá erum við farin að tala um eitthvað sem sætir mikilli gagnrýni í samfélaginu og veldur miklum deilum, þegar við þurfum að stíga þau skref að taka slíka rýni upp á það stig. Ég fullyrði að það eru svo margir sem koma að, t.d. stjórnstöðinni, samhæfingarmiðstöðinni, frá fjölbreyttum aðilum að það næst engin samstaða þar, menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því, ef það er undirliggjandi, að mál verði með einhverjum hætti þögguð. Það vilja allir, og reynslan sýnir okkur það, rýna til gagns í þessum málum og þess vegna höfum við náð þessum árangri, því að við erum alltaf að læra af reynslunni og alltaf að bæta í verkfærakistuna. Ráðherrann getur þá gripið inn í ef um er að ræða miklar deilur og eitthvað sem þarf að skoða miklu betur og auðvitað getur Alþingi alltaf stigið upp og óskað eftir skýrslu sérfræðinga um einhverja sérstaka stóra atburði og ekki ólíklegt að það eigi eftir að verða. Ég held því að reynslan sýni að það ferli sem við höfum þróað í samstarfi þessara viðbragðsaðila okkar, þar sem við höfum náð þeim í þetta víðtæka samstarf — það er ekki ástæða til að stíga út úr því þegar kemur að þessari rannsókn. Ég held að við ættum að meta þessa reynslu. Ég hvet nefndina til að taka umræðuna við viðbragðsaðilana um þetta og að um það verði gagnrýnin umræða. En ég hef ekki áhyggjur af þessu.

Ég skil vel að þetta komi til umræðu. Ég skil vel að þeir sem kannski þekkja ekki mjög vel þá ferla sem viðhafðir eru í dag hafi af þessu áhyggjur. En ég fullyrði að ekki er tilefni til þess, að mínu mati er ekki tilefni til þess. Það er oft betra að hafa ferlin einfaldari og hafa þau smurðari þannig að við lendum ekki í því, þegar stærri atburðir verða, að gangsetja þurfi einhver hjól sem ekki eru reglulega í gangi, eins og gerðist í snjóflóðunum 1995 og það hafði hnökra í för með sér. Reynum að smyrja hjólin og vinna vel úr þeirri reynslu sem við eigum og bæta vinnubrögð okkar, sem er auðvitað markmiðið með þessu. Annars þakka ég fyrir þessa málefnalegu umræðu.