152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[17:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að Alþingi hafi í raun alltaf þessa heimild. Ég lít bara svo á að verði hér um mjög stórkostlegt almannavarnaástand að ræða, mjög stórkostlega atburði sem krefjast mjög ítarlegrar rýni og aðkomu margra sérfræðinga, þá hafi Alþingi alltaf þær heimildir sem þarf til að grípa inn í það. Það er bara eðlilegt og ekkert ólíklegt að það eigi eftir að gerast. Þetta á sér auðvitað ákveðin fordæmi í stórum atburðum þar sem unnar hafa verið alveg sérstakar skýrslur. Nærtækt er að minnast átakshópsins sem stofnaður var í kjölfar óveðursins 2019 einmitt til að meta aðstæður, læra af reynslunni og koma með tillögur til úrbóta, kannski ekki bein rannsóknarnefnd en klárlega var hópurinn samt sem áður með það hlutverk að rýna og koma með tillögur um hvað betur megi fara.