152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

ákvörðun nr. 50/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

198. mál
[18:05]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Með tillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem gerir tilteknar breytingar á EES-reglum á sviði fjármálaþjónustu, nánar tiltekið afleiðuviðskipta. Yfirleitt er vísað til regluverksins á sviði afleiðuviðskipta sem EMIR og hér er um að ræða svokallað EMIR Refit sem er ætlað að fínstilla EMIR-regluverkið. Meðal annars er létt á ýmsum kröfum til ófjárhagslegra aðila og smærri fjárhagslegra aðila. Ýmsar skyldur varðandi afleiðuviðskipti eru einfaldaðar, samkeppnisgrundvöllur er jafnaður og viðskiptakostnaður minnkaður.

Brýnt er að taka fram að ekki er á nokkurn hátt dregið úr gagnsæi hvað varðar afleiðumarkaði eða úr eftirlits- eða inngripsheimildum eftirlitsaðila vegna kerfisáhættu. Breyta þurfti lögum hérlendis vegna innleiðingar gerðarinnar og var frumvarp þess efnis samþykkt á síðasta löggjafarþingi. Lögin gengu í gildi hinn 12. júní síðastliðinn. Venjulega væri þingsályktun sem þessi lögð fram og afgreidd samhliða lagafrumvarpinu, en til þess var ekki ráðrúm á síðasta þingi.

Ég legg til, virðulegi forseti, að við lok þessarar umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.