152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

loftslagsmál.

8. mál
[18:37]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Oft er okkur legið á hálsi í þessum sal að hugsa til of skamms tíma, aðeins örfá ár fram í tímann eða í mesta lagi eitt kjörtímabil í einu. Við erum sökuð um skammsýni og hvött til að hugsa áratugi fram í tímann, sjá alltaf fyrir okkur hvernig ákvarðanir sem við tökum í þessum sal í dag hafi áhrif til framtíðar. Ef við gerum það ekki missum við af tækifærinu til að móta alvöruframtíðarsýn fyrir Ísland og hvaða sess við viljum skipa í samfélagi þjóðanna.

Frumvarpið sem ég mæli fyrir í dag og flyt ásamt þingflokki Pírata og Samfylkingarfólkinu Helgu Völu Helgadóttur, Jóhanni Páli Jóhannssyni, Kristrúnu Frostadóttur og Þórunni Sveinbjarnardóttur er svar við slíkum gagnrýnisröddum. Það tekur ekki aðeins á stærsta vandamálinu sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir í dag heldur leggur það jafnframt grunn að lífvænlegri, ábyrgari og metnaðarfyllri framtíðarsýn fyrir Ísland. Svo ég minni á hversu áríðandi það er að takast á við loftslagsmálin af metnaði þá eru síðustu sjö ár heitustu sjö ár síðan mælingar hófust. Væntanlega verða öll næstu ár heitustu ár sögunnar líka. Þessi sjö heitustu ár síðan mælingar hófust, sem eru síðustu sjö ár, verða mögulega með köldustu árum 21. aldarinnar þegar henni lýkur. Það er nefnilega neyðarástand, frú forseti, í loftslagsmálum og með þessu frumvarpi er brugðist við því neyðarástandi með því að leggja til breytingar sem gera stjórnvöldum betur kleift og gera þeim það hreinlega skylt að takast af alvöru á við loftslagsvána, mikilvægasta úrlausnarefnið sem við stöndum frammi fyrir. Núverandi kerfi sem ríkisstjórnin starfar eftir tryggir einfaldlega ekki þann stigvaxandi og mikla þunga sem einkenna þarf stefnumörkun og aðgerðir stjórnvalda til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C.

Hér er lagt til að bæta úr því með fjórum meginaðgerðum. Þessar aðgerðir eru flokkaðar í heiti frumvarpsins sem aukinn metnaður, gagnsæi og aðhald. Lagt er til að ná auknum metnaði með því að lögfesta markmið um 70% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 og flýta markmiði um kolefnishlutleysi um fimm ár, til ársins 2035. Aðhaldinu ætlum við að ná fram með tveimur punktum; annars vegar með því að gera stjórnvöldum skylt að grípa til aðgerða í loftslagsmálum og að þau skuli ávallt gera grein fyrir því hvort aðgerðir og áætlanir séu í samræmi við loftslagsmarkmið og hins vegar með því að breyta skipan og hlutverki loftslagsráðs svo það sé sjálfstætt til að sinna öflugu aðhaldshlutverki gagnvart stjórnvöldum og að hagsmunaaðilum, sem í dag eru hluti af loftslagsráði, verði fundinn nýr staður á loftslagsvettvangi, sem við köllum svo í frumvarpinu. Gagnsæinu viljum við ná fram til þess m.a. að styrkja opinbera umræðu og gera almenningi auðveldara að hafa aðhald með stjórnvöldum. Því ætlum að ná fram m.a. með því að ráðherra leggi aðgerðaáætlun ríkisstjórnar í loftslagsmálum fyrir Alþingi til afgreiðslu og með því að loftslagsráð, í sinni nýju samsetningu, geri opinberar greiningar á aðgerðaáætlun og öðrum stefnuplöggum stjórnvalda.

Ég ætla rétt að víkja að ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna frá síðasta hausti, COP26, aðildarríkjafundi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem var haldinn í Glasgow í nóvember. Í aðdraganda þess fundar tók Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna saman öll landsframlög, sem sagt öll þau tölusettu markmið sem ríki heims höfðu skilað inn til samningsins og birti í skýrslunni Emissions Gap Report — hvað köllum við það á íslensku, losunargapsskýrslu? Gap er nefnilega ágætisþýðing vegna þess að í ljós kom að það var ginnungagap á milli þess metnaðar sem löndin sýndu tölulega, formlega, og þess metnaðar sem þyrfti. Samantekið komust höfundar skýrslunnar að þeirri niðurstöðu að ef bara væri litið á þau landsframlög sem væru engum skilyrðum háð, sem ríki ætluðu að gera sama hvað en ekki gegn einhvers konar ívilnunum á alþjóðasviðinu eða einhverju öðru, þá myndu áætlanir aðildarríkjanna leiða til 2,7°C hlýnunar á öldinni. Þetta var aðeins skárra, þetta var minni hlýnun en var reiknuð út í sambærilegri skýrslu árið áður, en ekki nándar nærri þeim markmiðum sem Parísarsamningurinn setur. Þær 2,7°C sem metnaður ríkjanna myndi leiða fram eru eins og gefur að skilja töluvert meira en sú 1,5°C sem stefnt er að. Samantekin reyndust þessi landsframlög einungis stefna að um 7,5% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en til að ná markmiðinu þyrfti heildarlosun heimsins að dragast saman um a.m.k. 55%.

Aðildarríkjaráðstefnan COP26 var full af blaðamannafundum þar sem ríki kynntu aukinn metnað og áætlanir um að draga úr kolanotkun og gera hitt og þetta, allt gott og blessað, en Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna tók sig til meðan á ráðstefnunni stóð og safnaði saman þessum nýju loforðum aðildarríkjanna og reiknaði út hvort niðurstaða skýrslunnar myndi breytast nokkuð og í ljós kom að svo var alls ekki. Þessi loforð breyttu litlu sem engu um útkomuna, enda byggðust yfirlýsingar flestra ríkjanna annaðhvort á óljósum loforðum eða loforðum til það langs tíma að þau hefðu ekki nógu mikil áhrif í bráð til að breyta niðurstöðu skýrslunnar. Það sem skiptir nefnilega mestu á þessum tímapunkti er hvað ríki heims setja sér sem markmið eftir bara átta ár. Það þarf ekki að hugsa til mikið lengri framtíðar. Stóra markmiðið sem við þurfum að horfa á er metnaður ríkja fyrir árið 2030, viðmiðunarár Parísarsamningsins. Þar vantaði gríðarlega mikið upp á. Reyndar gengu aðildarríkin svo langt að ég myndi vilja segja rassskella sig sjálf á COP26 þegar þau sögðu að það sem aðildarríkin komu með að borðinu, sem átti að vera uppfærð markmið á fimm ára afmæli Parísarsamningsins, væri fullkomlega ófullnægjandi og því þyrftu þau að mæta aftur á næsta ári, ekki eftir fimm ár eins og samningurinn setur sem lágmarkstíma fyrir uppfærslu, með uppfærð landsframlög, betri markmið.

Gott og vel, gætu sum okkar hugsað. En stendur Ísland sig ekki vel? Erum við ekki í hópi þeirra sem eru í bestum málum, er Evrópa ekki bara góð og eigum við ekki að vera bara „áfram gakk“ og glöð með okkar? Því miður, frú forseti, er það alls ekki svo.

Síðast þegar ég mælti fyrir þessu frumvarpi reyndi ég að teikna upp línurit með höndunum. Ég ætla að gá hvort ég get það með orðum núna frekar. Við stöndum núna átta árum frá 2030 og stjórnvöld vilja ná kolefnishlutleysi tíu árum síðar. Í þessu frumvarpi er reyndar lagt til að kolefnishlutleysi verði náð 2035. Ef við segjum sem svo að við séum að fara úr 100% niður í 0% eftir 20 ár eða svo að segja þá getum við ekki látið duga að ná helmingnum af því á miðju tímabilinu vegna þess að uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum snýst ekki um punktstöðu hvers árs heldur uppsafnaða losun allra áranna. Það skiptir nefnilega máli, frú forseti, að ná losuninni niður eins hratt og hægt er til þess að hlýnunin verði eins lítil og mögulegt er. Þess vegna er markmið núverandi ríkisstjórnar um 55% samdrátt í losun fyrir árið 2030 einfaldlega ekki nóg. Það er tala sem er fengin frá Evrópusambandinu sem setti sér þetta markmið haustið 2020 en það markmið var ekki það besta sem í boði var. Það var framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem samdi sig niður á 55% en umhverfisnefnd Evrópuþingsins hafði lagt til að markmið um samdrátt yrði sett við 60% fyrir 2030. En samtök á borð við Greenpeace bentu á að meira að segja það væri ekki nóg, það þyrfti að vera ekki minna en 65% fyrir sambandið. Þau ríki — og þetta er það sem skiptir máli varðandi stöðu Íslands gagnvart þessum markmiðum — sem eiga auðveldast með það vegna þess hversu stöndug þau eru, auðugustu ríkin í álfunni, ættu að gera meira en þau fátækari vegna þess að það er auðveldara fyrir þau, þau hafa efni á því, vegna þess að margt af því sem þarf að gera krefst fjárfestingar. Þess vegna hafa mörg Evrópuríki sett sér sjálfstæð markmið sem ganga lengra en sameiginlegt markmið Evrópusambandsins krefur þau um.

Með því að Ísland setji sér það markmið sem lagt er til í frumvarpinu um 70% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 myndi Ísland einfaldlega fylgja í spor annarra Norðurlanda, þeirra sem eru einna framsæknust í Evrópu. Danmörk hefur lögfest markmið um 70% samdrátt. Noregur skilaði fyrir tveimur árum sjálfstæðu landsframlagi til Parísarsamningsins um 50–55% samdrátt áður en ljóst var að Evrópusambandið myndi setja markið þar og þar eru viðræður í gangi um að auka metnaðinn. Svíþjóð er með markmið um 63% og Finnland hefur sett markmið um kolefnishlutleysi árið 2035. Allt þetta gengur lengra en þau markmið sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér.

Mig langar að fara örstutt yfir efni frumvarpsins í grófum dráttum, svona eins og greinarnar liggja, í stuttu máli þó, frú forseti, ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Í 1. gr. frumvarpsins eru þessi lögbundnu markmið sem skiptir að mínu mati mjög miklu máli að festa í lög, að þau séu ekki í einhverjum stefnuplöggum stjórnvalda. Í dag er það svo að búið er að festa í lög markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 en þegar það var gert fyrir tæpu ári þá var felld tillaga þess sem hér stendur um að festa á sama tíma í lög áfangamarkmiðið um samdrátt fyrir árið 2030, sem þó er það viðmið sem væntanlega skiptir meira máli til að fara að hraða hlutum hér og nú.

Í 1. gr. frumvarpsins er þess vegna lagt til í fyrsta lagi að setja í lög tölulegt markmið um samdrátt í losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum um 70% fyrir árið 2030 og þar með muni stjórnvöld hafa mjög skýrt leiðarljós um það hvert allar áætlanir þeirra eigi að stefna. Í öðru lagi er lagt til að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2035. Það er sem sagt lagt til að færa það markmið nær okkur í tíma en er í gildandi lögum, sem er náttúrlega í samræmi við það verklag sem er bakað inn í Parísarsamninginn um að ríki skuli á hverjum tíma setja sér markmið um aukinn metnað. Stigvaxandi metnaður er ein af möntrunum í Parísarsamningnum. Árið 2035 er sama markmið og stjórnvöld í Finnlandi hafa sett sér. En svo að við setjum þau tvö ríki í samhengi, Ísland og Finnland, þá er Finnland mjög kalt land og mjög mikið af stóriðju þar og þungaiðnaði þannig að verkefnin sem stjórnvöld þar í landi eiga fyrir höndum eru ekkert lítil. Ef þau geta það þá ætti Ísland að geta það líka. Í þriðja lagi er lagt til í 1. gr. frumvarpsins að lögfesta uppfærslu á landsákvörðuðu framlagi Íslands til loftslagssamningsins, lögfesta það að stjórnvöld eigi að skila annað hvert ár uppfærðum markmiðum til loftslagssamningsins. Í dag er miðað við fimm ár í Parísarsamningnum og var mikil umræða um það á aðildarríkjafundinum í haust að nauðsynlegt væri að þessi uppfærsla yrði örari, sérstaklega hjá þeim ríkjum sem hefðu kannski bolmagn í stjórnsýslunni til að gera þetta hraðar. Hér er lagt til að Ísland sýni vilja sinn í verki með því að sýna að við höfum metnað og viljum leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og stefna sífellt að auknum árangri. Þessu tengt er síðan lagt til að fyrsta uppfærsla samkvæmt þessu ákvæði eigi sér stað eigi síðar en 7. febrúar 2022 — nú hasta ég, ég held að nefndin þyrfti að hafa hraðar hendur til að við næðum því. En það er í samræmi við það sem lokaályktun COP26 hvatti til, þ.e. að ríkin skiluðu inn áætlunum sem samræmdust markmiðinu um 1,5°C fyrir næstu ráðstefnu sem á að hefjast 7. nóvember í haust. Þar sem Parísarsamningurinn gerir ráð fyrir að uppfærðum landsframlögum sé skilað inn 9–12 mánuðum fyrir ráðstefnu þá væri 7. febrúar þannig séð skilafrestur fyrir ráðstefnu í haust. Þetta var um lögbindingu markmiðanna.

Í 2. gr. frumvarpsins er kannski stærsta nýmælið í frumvarpinu frá því að það var lagt fram fyrir ári, sem er nokkurs konar aðgerðaskylda stjórnvalda. Hér er verið að reyna að endurspegla mikilvægi þess að stjórnvöld grípi til aðgerða, alveg óháð því hvernig vindar blása í Stjórnarráðinu. Í því skyni er nauðsynlegt að löggjafinn festi í lög einhverja skyldu stjórnvalda til þess að máta allar aðgerðir sínar við markmið loftslagslaganna. Þetta er angi af hreyfingu sem hefur vaxið fiskur um hrygg víða um heim á undanförnum árum þar sem fólk er að reyna að leita réttar síns fyrir dómstólum gagnvart aðgerðum og líka aðgerðaleysi stjórnvalda. Það eru afar fá dæmi um að deiluefni sem varða loftslagsmál hafi komið til kasta dómstóla hér á landi en Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna gaf út skýrslu 2020 þar sem áætlað var að á þeim tímapunkti hefðu 1.550 slík dómsmál verið höfðuð á heimsvísu. Dæmin sem við höfum kannski mest heyrt af hér á landi snúa að olíuleit og leyfisveitingu ríkja vegna olíu- og gasleitar og þá kannski sérstaklega málarekstur ungmenna og umhverfisverndarsamtaka á hendur norska ríkinu vegna, að því er virðist, endalausra áforma Noregsstjórnar um olíu- og gasleit. Það mál var höfðað á grundvelli alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga sem kveða á um rétt fólks til heilnæms umhverfis og náttúru. Þrátt fyrir að sambærilegt ákvæði væri jafnframt í norsku stjórnarskránni unnu ungmennin og umhverfisverndarsamtökin málið ekki, alla vega ekki fyrir hæstarétti Noregs, en verið er að skoða áfrýjun til alþjóðlegra mannréttindadómstóla. Það er allur gangur á þessu eftir löndum. Annað dæmi sem mætti nefna er svokallað Urgendamál í Hollandi þar sem umhverfisverndarsamtök höfðu betur gegn ríkinu og dómstólar hreinlega fyrirskipuðu ríkisstjórn Hollands að herða markmið sín í loftslagsmálum, komust að því að ríkisstjórnin væri ekki að standa sína plikt með þeim markmiðum sem hún hefði sett sér.

Með því að festa slíkt ákvæði í lög hér og nú myndum við gera ábyrgð hins opinbera skýrari og auka möguleika almennings og hagsmunaaðila á að láta stjórnvöld standa við skuldbindingar sínar og þannig næðum við vonandi að snúa mótornum hjá stjórnvöldum þannig að þau gripu til róttækari aðgerða ár frá ári.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum verði töluvert ítarlegri, í henni verði lagt betra mat á áætlaðan kostnað og mat á loftslagsávinningi allra aðgerða, auk þess sem hún þurfi náttúrlega að endurspegla þann aukna metnað sem lagt er til að lögfesta í þessu frumvarpi. Þar að auki er lagt til að ráðherra leggi fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlunina eigi síðar en sex mánuðum eftir að ríkisstjórn er mynduð. Það held ég að skipti máli til þess að við fáum breiðari pólitískan stuðning á bak við aðgerðirnar, til þess að ríkisstjórnin hafi skýrara umboð til að grípa til metnaðarfyllri aðgerða. Síðan er kveðið á um að eigi sjaldnar en árlega skuli fara fram sérstök umræða á Alþingi um stöðu loftslagsmála eins og er t.d. hefð fyrir um utanríkismál. Árlega er hér í þingsal einn þingdagur lagður undir umræðu um utanríkismál og ég held að vel færi á því að loftslagsmálin fengju svipað pláss á dagskránni.

Síðan er lagt til að breyta skipan loftslagsráðs, eins og ég kom að hér áðan, þannig að það verði skipað óháðum sérfræðingum og því gefin sú aðstaða og það fjármagn sem þarf til að veita stjórnvöldum meira aðhald. Í dag gegnir loftslagsráð tvíþættu hlutverki. Það er bæði samvinnuvettvangur hagaðila og það á að leggja faglegt og hlutlaust mat á aðgerðir stjórnvalda. Þetta tvíþætta hlutverk þekkist ekki í nágrannalöndum okkar, hjá systurráðum loftslagsráðsins, og er að ég held mjög bagalegt fyrirkomulag sem við þurfum að bæta úr. Með þessu væri hægt gefa ráðinu það hlutverk og þau verkfæri sem það þarf til að verða einhvers konar varðhundur loftslagsins og hvetja stjórnvöld á hverjum tíma til að gera sífellt betur í loftslagsmálum. Engu að síður skiptir máli það hlutverk sem loftslagsráð hefur í dag, að draga alla að borðinu. Þess vegna er lagt til í 6. gr. frumvarpsins að þessu hlutverki, að leiða saman alla þá aðila sem kunna að hafa eitthvað fram að færa varðandi aðgerðir í loftslagsmálum, verði fundinn nýr staður sem er betur við hæfi. Í frumvarpinu er það kallað loftslagsvettvangur sem ráðherra á að starfrækja og halda utan um. Það mætti skoða hvort það verði skörun á verkefnum slíks vettvangs og Grænvangs, sem starfræktur hefur verið um nokkurra ára skeið og leiðir saman íslensk fyrirtæki og stjórnvöld, og jafnvel ræða við aðstandendur Grænvangs um það hvort hann gæti hreinlega tekið við þessu hlutverki og leyst loftslagsráð undan því.

Þetta, frú forseti, er í grófum dráttum efni þessa frumvarps. Kannski er rétt að ljúka þessu með því að víkja nokkrum orðum að því að árangur í baráttunni við loftslagsvána mun hafa ráðandi áhrif á það hvernig okkar þingmannanna verður minnst. Loftslagsbreytingar eru hérna og þær eru í dag, alveg eins og við. Ef það erum ekki við sem erum í þessum sal í dag sem bregðumst við, hver þá? Eins og ég sagði í upphafi er neyðarástand og við höfum kannski lært það í Covid að neyðarástand getur verið lýjandi ástand og það getur verið þreytandi að starfa sífellt á neyðarstigi. En við skulum ekki gleyma því að aðgerðir (Forseti hringir.) í þágu loftslagsmála eru líka stóru tækifærin á næstu árum, óteljandi tækifæri sem munu varða leiðina til betra samfélags (Forseti hringir.) og verðmætasköpunar næstu áratugina. Þess vegna eigum við að hugsa stórt til framtíðar, við höfum alla burði til þess og okkur ber skylda til þess (Forseti hringir.) og komandi kynslóðir munu þakka okkur fyrir það.

(Forseti (DME): Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutímann. )