152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

11. mál
[17:13]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál sem hefði þurft að vera búið að afgreiða fyrir mörgum árum. Við búum við það þarna suður með sjó að lítið þarf að gerast til að við verðum rafmagnslaus og þá úr öllu sambandi við aðra landshluta, útlönd eða þá sem við þurfum að hafa samskipti við, fyrir utan náttúrlega allt það tjón sem getur skapast af því ef fyrirtæki stöðvast. Ég minnist þess að ekki eru mörg ár síðan járnplata fauk á Suðurnesjalínu 1 og gerði það að verkum að Suðurnesin sló öll út á einu bretti í marga klukkutíma. Það staðfestir nauðsyn þess að það séu fleiri kostir en bara ein lína til að flytja rafmagn inn á svæðið. Og ekki bara rafmagn inn á svæðið, það er líka verið að flytja rafmagn út af svæðinu af því að við erum með stórt og mikið fyrirtæki, HS Orku, sem sér um að skaffa öðrum landshlutum, fyrirtækjum og íbúum þessa lands orku. Ég hef því allan tímann verið stuðningsmaður þess að við tryggjum afhendingaröryggi orku, bæði inn á svæðið og frá því.

Sveitarfélagið Reykjanesbær, þar sem ég hef setið í bæjarstjórn í talsverðan tíma, tók ákvörðun um það á sínum tíma að samþykkja ekki framkvæmdaleyfi. Rök okkar fyrir því voru þau að við töldum eðlilegt að tekið yrði tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu hjá sveitarfélaginu Vogum þar sem óskað var eftir því að ákveðinn hluti línunnar yrði lagður í jörð þar sem þetta svæði væri ekki fjarri byggð, og við töldum rétt að taka undir þau sjónarmið. En aftur á móti skiptum við um skoðun og samþykktum framkvæmdaleyfi fyrir okkar leyti ekki fyrir löngu þannig að framkvæmdaleyfi fyrir lagningu línunnar í gegnum sveitarfélagið Reykjanesbæ er til staðar. En það var algerlega óháð því að neyða ætti sveitarfélagið Voga til einhverra ákvarðana sem það var ekki tilbúið til að taka. Og það er það sem ég staldra við á þessum tímapunkti.

Hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér nefndi sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna og skipulagsvald sveitarfélaganna, sem ég staldra við og ég var ekki tilbúinn til að skrifa upp á þetta frumvarp. Þið hafið kannski tekið eftir því að flestir þingmenn Suðurkjördæmis eru meðflutningsmenn á frumvarpinu en ég er ekki þar á meðal. Hvers vegna er það þannig? Ég sem sveitarstjórnarmaður í Reykjanesbæ hefði aldrei, ekki undir nokkrum kringumstæðum, viljað una því ef sett hefðu verið á sveitarfélagið sérlög og skipulagsvaldið tekið af því. Ég vil bara minna á að ein helstu rökin fyrir því að hálendisþjóðgarður varð ekki að veruleika, m.a. hjá flutningsmönnum þessa frumvarps, voru þau að með því að samþykkja lög um hálendisþjóðgarð væri verið að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum. Þau sömu rök gilda í sjálfu sér hvað þetta mál varðar, eins mikilvægt og það er nú.

Það er í gildi fyrirkomulag sem er með þeim hætti að sveitarfélög sjái um skipulag innan sinna sveitarfélagamarka. Í greinargerð með frumvarpinu er talað um að verði frumvarpið að lögum verði um að ræða sérlög sem gangi framar almennum lögum er kunna að varða útgáfu framkvæmdaleyfa. Líta megi svo á að það frumvarp sem hér er lagt fram, um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2, sé afmörkuð einskiptisaðgerð. Ég get ekki með nokkru móti litið þannig á að þetta sé einskiptisaðgerð. Það skapar auðvitað verulega mikið fordæmi að gera þetta með þessum hætti, að taka lögbundinn og lögvarinn rétt af sveitarfélagi, af því að Landsnet telur að samkvæmt lögum verði þeir alltaf að leggja línur eins ódýrt og hægt er. Það hefur komið í ljós í óveðrum að það þarf að fara að endurskoða þetta því að á Íslandi geisa óveður og línur hrynja og rafmagn fer af, ekki bara á Suðurnesjum heldur út um allt land. Ég held að það sé kominn tími til að þetta verði endurskoðað.

Í frumvarpinu er verið að tala um línuleið C, sem er bara loftlína alla leið, en sveitarfélagið Vogar hefði verið tilbúið til að fara í blandaða leið og hefur verið tekið undir þá leið af Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun hefur stutt sveitarfélagið í því að það gæti hentað að fara þessa blönduðu leið vegna þess að þessi lína yrði ansi nálægt bæjarfélaginu og það er auðvitað sveitarfélag, eins og mörg önnur sveitarfélög, í mjög örum vexti og við vitum ekki hvert byggðin þróast. Skipulagsstofnun hefur því tekið undir þetta og í raun talað fyrir því að þessi sé C-kostur sé kannski sá versti.

Einnig var bent á það áðan í ræðu að Landvernd geri alvarlegar athugasemdir við þetta mál. Stjórn Landverndar telur að þetta frumvarp sé stórhættulegt. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að segja að það sé stórhættulegt en ég vil alla vega segja að mér þykir alvarlegt að fara eigi fram af slíkum þjösnaskap til að koma þessu í gegn, að taka rétt af sveitarfélagi til að ná þessu fram. Það skiptir mig máli sem íbúa í Reykjanesbæ að Suðurnesjalína verði til með einhverjum hætti. En ég er ekkert viss um að ég sé tilbúinn til að skrifa upp á það með þessum hætti. Af hverju á að setja sérlög á eitt sveitarfélag? Af hverju má þá ekki breyta lögum þannig að Landsnet fái heimild til að vinna verkið á annan hátt? Ég held að það standi ekkert á sveitarfélaginu Vogum að styðja við það ef farin verður blönduð leið, að línan fái að fara í gegnum sveitarfélagið Voga, ég held að það standi ekkert á þeim í því. Mér finnst því eðlilegt að menn staldri við og skoði aðrar leiðir sem geri það að verkum að þessi lína verði lögð í sátt við þá sem að málinu eiga að koma, hagsmunaaðila sem eiga að koma að málinu. Það hefur verið mikil andstaða við línulögnina í sveitarfélaginu og lái þeim það hver sem vill. Tvöföld lína þarna er verulegt umhverfislýti og ég skil vel að þeir horfi til þess að þetta sé gert með einhverjum öðrum hætti. Hér hefur verið nefnt að eldgos undanfarna mánuði hafi kennt okkur það að jarðstrengir gætu hugsanlega verið verri kostur, en það er ekkert í hendi. Þrátt fyrir að einhverjir sérfræðingar hafi sagt það þá eru aðrir sérfræðingar á annarri skoðun.

Ég held að nefndin sem tekur málið til meðferðar eigi að fara vel yfir þessa hluti og gaumgæfa öll sjónarmið í málinu. Það mun aldrei þjóna hagsmunum okkar að fara fram með þjösnaskap og valta yfir aðra valdhafa í samfélaginu. Það er að minni hyggju ekki rétt. Við munum skapa fordæmi, leiðindi til langrar framtíðar, sem mér finnst ótækt að verið sé að gera. Sveitarfélagið er nú komið í þann farveg að fara hreinlega að tala um að endurskoða aðalskipulag og með því koma þessu algerlega út úr landinu. Sveitarfélagið ætlar ekkert að gefa eftir í málinu. Mér finnst þessi vinnubrögð ekki vera eitthvað sem við eigum að láta viðgangast. Eins mikilvæga og ég tel Suðurnesjalínu 2 vera finnst mér eðlilegt og rétt að við skoðum möguleika á því að koma til móts við sveitarfélagið Voga þannig að allir geti farið sæmilega sáttir frá borði. Það á ekki að vera þannig að Landsnet geti bara valtað yfir allt og alla. Þetta er stofnun sem á að fara eftir því verklagi sem ákveðið er á þingi og við getum auðvitað bara ákveðið annað verklag. Ef það hefur verið þannig að Landsnet þarf alltaf að velja ódýrasta kostinn, alveg sama hvað, þá er þó til staðar heimild, eins og bent var á af málshefjanda, og það er verið að leggja línu í jörðu á þéttbýlissvæðum, bæði í Reykjanesbæ og í Hafnarfirði, þannig að það má leggja í jörðu. Ég skil því ekki að þetta mál sé látið þæfast svo árum skiptir í málaferlum endalaust við allt og alla til þess eins að valta yfir lítið sveitarfélag sem hefur þennan lögvarða rétt.