152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

11. mál
[17:26]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir góðan flutning og útskýringar á því sem þetta snýst um. Við hljótum að styðja orku-, samgöngu- og samskiptaöryggi allra landshluta á öllum tímum og nú meira en nokkru sinni fyrr. Hér er verið að tala um að leggja línur og stærsta búgrein okkar á síðari árum lýtur að því að taka á móti erlendum gestum sem að langstærstum hluta lenda á Reykjanesskaganum fagra. Við skulum reyna að sammælast um að standa vörð um þá annáluðu fegurð Íslands, velferðarsamfélagsins ríka, sem hefur full efni á því að gera hlutina fallega og myndarlega. Það sem meiðir auga mitt mest á ferðum mínum um landið eru þessar stórkarlalegu háspennulínur og þessar línur sem liggja þvers og kruss og eru eiginlega dálítið fyrri tíma tákn. Þess vegna beini ég því til míns góða vinar, málshefjanda, að það verði hreinlega send skilaboð um að við viljum fela svona innviði eftir megni, komið þeim fyrir í jörðu, þó að það kosti örlítið meira. Segjum: Stöndum vörð um fagra Ísland, örugga Ísland, framtíðarlandið okkar allra.