152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

11. mál
[17:28]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er mjög mikilvægt að fá þau sjónarmið fram sem hérna komu, bæði þau sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir kom með áðan og eins skil ég skil alveg þau skilaboð sem komu fram í ræðu hv. þm. Guðbrands Einarssonar og hv. þm. Jakobs Frímanns Magnússonar, sem flutti góða ádrepu um að við þurfum að hugsa vel um landið okkar. Ég held að við séum algerlega sammála um það. Öllum finnst okkur að landið okkar eigi að vera algerlega óspjallað og að við getum horft á það og boðið erlendum gestum okkar upp á að sjá Ísland eins og það er og kemur beint af náttúrunni. En innviðir, hvort sem það eru vegir eða línur, eru auðvitað rask á náttúrunni og við þurfum alltaf að gæta þess að fara þannig í það að það raski sem minnst. Við höfum sett ákveðnar leikreglur í því sambandi og síðan erum við líka með tæknileg vandamál sem eru því samfara að leggja langa jarðstrengi. Það er búið að fara margoft yfir það með okkur hér í þinginu, í atvinnuveganefnd, á síðustu árum að það eru bara mjög miklir vankantar á því að flytja rafmagn í svona miklu magni í gegnum jarðstreng um langan veg. Þetta hefur komið upp varðandi lagningu jarðstrengs yfir Sprengisand og fleiri leiðir. Rafmagnstæknifræðilega séð, ef ég nota rétt nafn yfir þetta, er það eiginlega ógjörningur. Svo er ljóst að rafstrengir í jörðu af þessu kalíberi eða þessari stærð raska meiru en loftlínur vegna þess að það þarf að leggja tvöfaldan streng út af öryggi og rask í hrauni er með ólíkindum mikið. Okkur er sagt það á Suðurnesjum að ef lagður verður strengur í gegnum hraunið þá taki það í rauninni annað eins pláss af hrauninu og Reykjanesbrautin.

En ég vil þakka þessa umræðu. Það er mjög mikilvægt að umhverfis- og samgöngunefnd hlusti á það sem ræðumenn dagsins sögðu og tóku undir og bentu á. Ég tek fyllilega undir að það verði skoðað nákvæmlega. En mikilvægast er að við klárum þetta mál vegna þess að við erum búin að taka 17 ár að þrasa um þetta og það er það sem er óboðlegt í málinu — 17 ár.