152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

11. mál
[17:41]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er verið að tala um að leggja línur og hvort sem það verður ofanjarðar eða neðan þá langar mig, af því að það er áliðið dags, að grípa til myndmáls. Hér er baráttumaður til 17 ára, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, að halda þessu mikilvæga máli til streitu. Ásmundur, hönd guðs, sonur Friðriks. Hér er eitthvað skrifað í skýin, hv. þingmaður. Svo kemur brandur guðs og bregður brandi hér í nafni sveitarfélagsins og sveitarfélaganna sem hlut eiga að máli. En ég er þess fullviss að það muni nást sátt í þessu máli, það fái nú að fullkomnast, hljóti fullnustu, þótt fyrr hefði verið. Orkan sem hér um ræðir, raforkan sjálf, rifjum upp hvernig hún knúði fyrst á Suðurnesjum og innleiddi bítið úr sjálfum bítlabænum, rafvæðingu tónlistarinnar og í framhaldi af bítinu kom svo „bitcoin“, bítkrónan, sem er framleidd þarna í stórum stíl. Og það er nóg til, kæri Ásmundur, kæri Guðbrandur, til að gera þetta, klára þetta með bítkrónunum sem þarna falla í þúsundavís á hverjum degi og við klárum málið núna í sátt.