Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara.

12. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara. Tillagan liggur fyrir á þskj. 12 og er mál nr. 12. Flutningsmenn auk þeirrar sem hér stendur eru þeir Ágúst Bjarni Garðarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Jódís Skúladóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Vilhjálmur Árnason og Þórarinn Ingi Pétursson. Flutningsmenn eru úr flestum þingflokkum, eins og heyrist af þessari upptalningu, en málið er jafnframt eitt af þeim málum sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur sett í forgang og kemst á dagskrá nú í janúar enda varðar málið fjölmarga íbúa þessa lands, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.

Tillagan hljómar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara.

Markmið úttektarinnar verði að greina hverju sé helst ábótavant í tryggingavernd og úrvinnslu tjóna og að draga fram leiðir til úrbóta.

Í úttektinni verði einkum horft til náttúruhamfara síðustu 10 ára, en úttektina mætti afmarka frekar í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga eftir að vinnan hefst.

Úttektinni verði skilað í formi skýrslu til Alþingis eigi síðar en 1. júlí 2022.“

Ég ætla að grípa hér niður í greinargerðina en líka að reyna að komast aðeins út fyrir efni hennar þegar ég geri grein fyrir þessari tillögu. Hún var áður flutt á 151. löggjafarþingi, var þá mál nr. 817, og komst ekki á dagskrá þingsins en er nú endurflutt óbreytt með minni háttar breytingum og viðbótum í greinargerð. Eins og við vitum þá hafa íbúar Íslands alla tíð glímt við náttúruöflin og sambúðin með þeim reynst landsmönnum áskorun. Síðustu árin hafa ekki verið nein undantekning á því þar sem náttúruhamfarir hafa gengið yfir og valdið umtalsverðu eigna- og rekstrartjóni. Þar nægir að nefna óveðrið í desember 2019 sem kom verst niður á Norður- og Norðvesturlandi en hafði áhrif víða um land, snjóflóð á Flateyri, flóð í Þingeyjarsveit á liðnu hausti og aurflóð á Seyðisfirði fyrir rúmu ári. Samkvæmt nýjustu ársskýrslu Náttúruhamfaratryggingar Íslands voru stórtjón á árinu 2020 14 talsins, en frá árinu 1987 hafa slík tjón verið sjö á ári að meðaltali. Eins og við vitum er tjón af völdum náttúruhamfara oft tilfinnanlegt og getur reynst hvort sem er einstaklingum eða rekstraraðilum ofviða og ef íbúar eða fyrirtæki á einhverjum stað ráða ekki við tjón sem verður af náttúruhamförum þá ógnar tjónið heilu samfélögunum. Þess vegna er tryggingavernd vegna náttúruhamfara mikilvæg sem og skilvirk og sanngjörn úrvinnsla strax í kjölfar hamfaranna. Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna. Má þar nefna ýmiss konar vöktun náttúruvár, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, ofanflóðasjóð, bæði varnirnar sem hann byggir upp og bætur sem hann greiðir, og Bjargráðasjóð, sem bætir ýmis tjón þeirra sem stunda búskap. Þá hefur verklag stjórnvalda við að bregðast við afleiðingum einstakra hamfara mótast og slípast mjög á síðustu árum. Við alla úrvinnsluna spila tryggingar sem keyptar eru af tryggingafélögum inn í verndina, bæði lögboðnar tryggingar og valfrjálsar tryggingar. Stundum er samspil þessara trygginga óvænt og ófyrirséð, en mikilvægt er að samræmis gæti í tryggingavernd og að öll úrvinnsla sé skilvirk og eins sanngjörn og mögulegt er.

Að úrvinnslu tjóna koma margir aðilar, m.a. tjónþolar, starfsmenn tryggingafyrirtækja og sjóða, matsmenn tryggingafyrirtækja, verkfræðingar við hönnun viðgerða, verktakar sem gera við, hreinsa, rífa og endurbyggja mannvirki, stjórnvöld, þ.e. sveitarfélög, ríkisstofnanir, ráðuneyti og jafnvel ríkisstjórn. Kostnaður og vinna hjá stjórnvöldum og tjónþolum eykst eftir því sem úrvinnsla tryggingamála dregst á langinn. Mikil reynsla hefur safnast upp á síðustu árum sem mikilvægt er að læra af og nýta til að bæta vinnubrögð. Eftir skriðuföllin á Seyðisfirði hafa komið fram ýmsar áskoranir sem ekki hafa endilega verið til umræðu áður, ásamt öðrum sem vakið hefur verið máls á fyrr. Það má nefna ósamræmi í bótum til þeirra sem missa húsnæði sitt í hamförum og þeirra sem þurfa að flytja úr húsnæði vegna hættu á hamförum, þ.e. húsnæði sem er á hættusvæði og verður að hætta notkun á. Þá er margt óljóst varðandi vernd og tryggingar atvinnulífsins, atvinnufyrirtækja og atvinnuhúsnæðis.

Ljóst er að tilefni er til að gerð verði úttekt á þessum málum og það er einmitt það sem flutningsmenn telja tímabært að gera; leggja mat á samspil ólíkra þátta og hvernig allar þær mikilvægu aðgerðir sem komin er reynsla á vinna saman, hvort einhvers staðar séu göt og hvort tilefni sé til úrbóta. Þess vegna er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að láta gera úttekt á tryggingavernd. Úttektin nái bæði til stöðu einstaklinga og lögaðila í kjölfar atburða þar sem náttúruhamfarir hafa valdið eignatjóni, rekstrartjóni eða tjóni á opinberum innviðum. Farið verði yfir alla tryggingavernd, lögboðnar tryggingar, valfrjálsar tryggingar og tryggingar opinberra sjóða sem, eins og áður var nefnt, geta verið ofanflóðasjóður, Náttúrhamfaratrygging Íslands og Bjargráðasjóður. Þá er mikilvægt að skoða reynslu af nýlegum verklags- og lagabreytingum, svo sem á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands frá 2019, m.a. hvað varðar afgreiðslu bóta til tjónþola sem nú greiðast samkvæmt framvindu úrbóta. Það hafði komið upp fyrir einhverjum árum að bætur höfðu ekki alltaf nýst til þess að bæta að fullu tjón sem orðið hafði.

Í tillögunni eru svo talin upp 13 atriði sem lögð er áhersla á að tekin verði til skoðunar í úttektinni. Ég ætla ekki endilega að lesa upp þessi 13 atriði heldur frekar að koma inn á ýmis álitamál sem komið hafa upp upp á síðkastið, einkum kannski í tengslum við skriðuföllin á Seyðisfirði, og eru í raun forsenda þess að þessi 13 atriða listi er í greinargerðinni. Eins og hv. þingmenn vita eru forsendur þess að tryggingaábyrgð skapist hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands að eignir séu brunatryggðar. Húsnæði er almennt brunatryggt og flestir eru með brunatryggingu innbús, þar sem hús og innbú fæst bætt. Hins vegar eru fæstir með lausamuni brunatryggða. Því ná þessar tryggingar ekki yfir t.d. tæki og tól atvinnufyrirtækja. Hjá flestum eru sólpallar, jafnvel þótt stórir séu og miklir, ekki brunatryggðir og fást þeir því ekki bættir eftir hamfarir. Skylda náttúruhamfaratryggingar til að hreinsa upp aur og grjót af lóðum nær til nánasta umhverfis húss, u.þ.b. 4 metra, þannig að það er ekkert víst að hreinsun lóðar sé tryggð.

Aftur aðeins að rekstraraðilum. Hjá þeim getur skapast verulegt tjón, sérstaklega vegna lausamuna sem eru ekki brunatryggðir, verkfæra, búnaðar, jafnvel byggingarefna eða hráefna annarra sem geta verið staðsett á ýmsum stöðum, á lóðum eða í verkfærageymslum eða á verkstæðum. Þessi búnaður getur verið þannig að engar tryggingar nái yfir hann eða hann tryggður á þann veg að altjón í náttúruhamförum fæst ekki bætt. Jafnvel getur staðsetning á lóð skipt máli. Skip og bátar sem lenda í hamförum fást bætt ef þeir eru húftryggðir, en bátar sem eru á landi eru hins vegar oft teknir af þeirri tryggingu og fást þá ekki bættir. Það á t.d. við ef þeir eru í viðgerð uppi á landi eða viðhaldi. Rekstrartryggingar virðast falla úr gildi í náttúruhamförum og rekstrartjón, hvort sem það felst í því að hella þurfi niður mjólk eða stöðva fiskvinnslu eða stöðva afgreiðslu grænmetis, virðist því ekki fást bætt. Foktjón í kjölfar hamfara hafa tryggingafélög neitað að bæta nema hægt sé að rekja hvaðan draslið sem fauk kom. Það getur reynst erfitt þar sem allt er komið í eina bendu vegna flóða. Vissulega hefur náttúruhamfaratrygging bætt slíkt tjón en þarna er þó augljóslega grátt svæði sem þarfnast skoðunar. Það er því að mörgu að hyggja og þetta er engan veginn tæmandi upptalning sem ég hef farið hér í gegnum.

Eins og yfirferð yfir þessi álitamál gefur til kynna þarf að meta samræmi í viðbrögðum, möguleg göt í kerfinu, hvað ekki fæst bætt og hvers vegna og á hverja kostnaður vegna hreinsunaraðgerða og annarra verkefna í kjölfar hamfara fellur. Markmiðið er að auka skilvirkni, jafnræði og sanngirni í úrvinnslu tjóna ásamt leiðum til að bæta upplýsingagjöf og fræðslu til þeirra sem búa við náttúruvá eða hafa lent í hamförum. Þá verði teknar saman tillögur um mögulegar aðgerðir sem stuðlað gætu að frekara jafnræði og sanngirni og fækkað úrlausnarefnum sem stafa af óljósum reglum.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að fækka gráu svæðunum eins og mögulegt er þó að ófyrirsjáanleiki náttúrunnar komi nú sennilega í veg fyrir að það takist 100%. Aðgerðir til úrbóta gætu t.d. falist í breytingu á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum, betri miðlun upplýsinga, fræðslu og kynningarverkefnum. Þá er mikilvægt að upplýsingar um tjón á fasteignum séu skráðar skipulega þó að farið sé í viðgerðir.

Ég vona einlæglega að þessi tillaga nái fram að ganga hér í þinginu. Það þarf að nýta uppsafnaða þekkingu og reynslu til frekari framfara.

Að lokum legg ég til að tillögunni verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar en finnst þó rétt að geta þess og benda á að efni tillögunnar varðar einnig verkefni umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar og hugsanlega fleiri nefnda. Ég tel þó að samspil tryggingaverndar og umfjöllun um það samspil eigi best heima hjá efnahags- og viðskiptanefnd.