Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara.

12. mál
[18:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mjög áhugaverð þingsályktunartillaga og ég er hjartanlega sammála því markmiði að ná fram skýringum á þeirri tryggingavernd sem við búum við hér á landi. Ég ætla að nefna dæmi um það og svo aðeins fjölbreyttari náttúruhamfarir í þessari ræðu. Byrjum á fjölbreyttum náttúruhamförum. Ég sá það ekki hérna, en tel að það ætti kannski að íhuga það líka, það fer þá kannski inn á verksvið velferðarnefndar, að faraldurinn sem við erum að ganga í gegnum núna eru ákveðnar náttúruhamfarir. Ég tel að það tjón sem við sem samfélag, og einstaklingar líka, verðum fyrir vegna faraldursins, vegna ýmissa takmarkana sem höfum þurft að sæta, náttúrlega líka í þessu augljósa beina sambandi við atvinnu og þess háttar, gæti á einhvern hátt náð inn á það sem við myndum flokka sem náttúruhamfarir og kalla á náttúruhamfaratryggingu og eitthvað því um líkt.

Við samþykktum lagafrumvarp um ákveðna tryggingu vegna t.d. bólusetninga. Það var tiltölulega lág upphæð og ég veit ekki hvort hún skiptir nokkru máli, ég hef alla vega engar áhyggjur af þeirri tryggingu, en hún er þá til staðar, sem er mjög mikilvægt. Ég sé á næstu árum fram á nauðsyn þess að greina mjög vel hvaða afleiðingar og hvaða áhrif faraldurinn hefur haft á samfélag okkar til þess að við getum brugðist fyrr en seinna við þeim skaða. Þetta er svipað og skriðurnar fyrir austan eða snjóflóðin fyrir vestan; faraldurinn er skriðan sjálf. Eftir það tekur við uppbygging. Það er líka hluti af einhverju sem tryggingar ná yfir. Við erum að fara að ganga inn í það tímabil í þessum faraldri að uppbyggingarfasinn, það sem hrundi, það sem fennti yfir, þarf að byggja upp á einhvern hátt á ný. Því fyrr sem við vitum nákvæmlega hverju við þurfum að einbeita okkur að í því verkefni, þeim mun betra. Ég vil aðeins bæta inn í þetta að náttúruhamfarirnar eru þarna líka í faraldrinum, að ég tel.

Hitt sem ég vildi tala um eru tryggingarskilmálar, sem eru hjartað í þessari tillögu þar sem verið er að tala um hvers konar eignir ekki hafa fengist bættar og hvers vegna það er. Þarna er verið að tala um jafnræði og svoleiðis. Tryggingarskilmálar og verð eru alveg rosalega ógagnsætt fyrirbæri þegar allt kemur til alls í almennum vátryggingum, ef við hugsum um það. Enda var ég með fyrirspurn um þetta mál á 148. löggjafarþingi þar sem ég spurði um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með nægri neytendavernd miðað við kröfur sem gerðar eru til slíkrar verndar. Þar var t.d. spurt um það sem hægt væri að gera, þ.e. Fjármálaeftirlitið gat, eins og kostur var á, fylgst með tryggingarskilmálum og hvort það virkaði allt. Það gefur til kynna að ef Fjármálaeftirlitið hefur ekki bolmagn til þess, af því að það eru fullt af öðrum verkefnum sem þarf að sinna — t.d. var fullt af öðrum verkefnum í kringum hrunið sem þurfti að sinna — þá er hægt að sleppa því að fylgjast með vátryggingarskilmálum; við gerum þetta eins og kostur er, en við getum það ekki núna og ætlum bara að sleppa því.

Eftirlit gagnvart þessu er einmitt gríðarlega mikilvægt þar sem ógagnsæið í skilmálunum er rosalega mikið. Neytendur geta ekki með nokkru móti komist að því hvert verðið er, eða eins og ég spurði hérna í 8. spurningu: Telur ráðherra það í samræmi við góða viðskiptahætti að vátryggingarfélögin hafi ekki gjaldskrá sýnilega í afgreiðslusölum sem aðgengilegir eru almenningi eða á netinu? Telur ráðherra að félögum sé ekki skylt að sýna verðlagningu á þjónustu sinni, á vörum, með skýrum hætti, eins og t.d. í verslunum og olíufélögunum? Svarið var, með leyfi forseta: Þegar kemur að verðlagningu vátryggingarafurða er ekki um staðlaða verðlagningu að ræða heldur byggjast iðgjöld á áhættusniði viðskiptavinar.

Þetta er rosalega áhugavert orðalag sem rímar mjög mikið við t.d. heilbrigðisumræðuna í Bandaríkjunum þar sem heilbrigðistryggingar eru einkavæddar. Þar vilja tryggingafélögin geta sett ákveðna einstaklinga í áhættuhópa og þar af leiðandi þurfa þeir að borga hærri iðgjöld. Þarna er tjónasaga og fleiri þættir teknir inn í. Af þeim sökum er ekki unnt að hafa eiginlega gjaldskrá.

Ég tel þetta algjörlega óboðlegt, í alvörunni. Þetta má ekki vera svona. Við verðum að geta borið saman kaup og kjör og verð vegna trygginga. Ég veit vissulega hvað ég borga fyrir tryggingar núna en ég verð alltaf að geta séð það, nákvæmlega eins og með raforkureikninginn minn, ef ég kaupi rafmagn frá öðrum miðlara þá sé ég strax hvort hann er ódýrari eða ekki. Ég á ekki að þurfa að hringja í öll tryggingafélög og spyrja: Hvernig lítur tryggingarkostnaðurinn út hjá mér? Og fá þá samband við einhvern viðskiptafulltrúa sem tekur saman upplýsingar, hver ég er og hvernig tjónasaga mín er o.s.frv., eða eins og það var orðað; eftir áhættusniði mínu. Ég skil ekki af hverju þess þarf. Mér finnst það ekki boðlegt því að þetta er einfaldlega vara sem verið er að kaupa. Hún er ekkert öðruvísi en aðrar vörur. Ég held að við ættum að nýta okkur eitthvað í kjölfarið á þessu til að laga til í tryggingabransanum því að hann er ekki gagnsær. Við vitum ekkert hvort það sé í rauninni verið að svindla á okkur.

Að lokum myndi ég vilja spyrja af hverju þessi þingsályktunartillaga er ekki bara skýrslubeiðni. Mér finnst eiginlega hægt að spyrja um þetta allt í skýrslubeiðni. Það þarf ekki endilega umfjöllun nefndar, heldur greiðir þingið bara beint atkvæði um þetta og ráðherra verður að skila nákvæmlega þessum upplýsingum, ályktar að gera úttekt og markmið úttektarinnar er að greina ákveðna hluti og horfa til síðustu tíu ára. Þetta er bara ágætt innihald skýrslubeiðni.