152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er í raun þriðja heila vikan sem við erum með óundirbúinn fyrirspurnatíma. Það var 7. og 9. desember, 13. og 16. desember en síðan var bara einn fyrirspurnatími í vikunni fyrir jól, 21. desember, og núna 17. og 20. janúar. Vikuna 7. og 9. desember mættu allir ráðherrar, líka 13. og 16. desember, skiptu sér á milli þeirra daga. Þann 21. desember mættu náttúrlega ekki allir, bara um helmingur og sluppu við seinni daginn, út af jólunum. En það eru nákvæmlega sömu ráðherrar og slepptu því að mæta 21. desember sem mæta ekki í þessari viku. Það eru fjármálaráðherra, umhverfisráðherra, innanríkisráðherra og menntamálaráðherra. Þeir hafa verið fjarverandi í tvær fyrirspurnavikur þó að ein hafi verið hálf út af jólunum. Mér finnst það óheppilegt enda hafa þeir mætt þá einna minnst í óundirbúna fyrirspurnatíma og það væri eðlilegt að alla vega þeir sem misstu af síðustu viku hefðu mætt í þessari viku.