152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið. Við höfum áður rætt hér um fjarveru fjármálaráðherra þegar verið er að bregðast við með efnahagslegum aðgerðum vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. En ég velti því líka fyrir mér hvort umhverfisráðherra ætti ekki að vera í salnum. Við höfum nýverið fengið býsna harðort bréf frá ESA varðandi ákvarðanir forvera hans í starfi og ég hefði viljað standa hér og ræða við umhverfisráðherra. Ég velti því fyrir mér hvort það sé hægt að óska eftir nærveru hans í salnum í dag til að ræða það mál.

Aðeins varðandi fundarstjórn forseta þá vil ég minna hæstv. forseta á að hann er forseti alls þingsins. Hann var settur í þá vondu stöðu hér fyrr í vikunni að tala, að mig grunar, sér þvert um hug þegar hann sagðist ekki vita um ferðir hæstv. fjármálaráðherra, sem kom í ljós örskömmu síðar að var ekki á landinu og var með staðgengil. Ég myndi ætla að það væri farsælla að forseti gætti að því að hann er forseti alls þingsins og honum ber að upplýsa um alla þá sem eiga að vera hér, en ekki leyna þingheim upplýsingum um ráðherra eða stjórnarliða.

Og svo vil ég að lokum segja að það væri gott að fá nöfn ráðherra og ráðuneyta hér á púltið. Það er ekki góður bragur á því að þingmenn séu í sífellu að reyna að muna hvað ráðuneytin og ráðherrar heita.