152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:44]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara aðeins hnykkja á þeirri skoðun minni, vegna orða sem virðulegur forseti lét falla áðan um að það væru líka fleiri leiðir, fleiri fyrirspurnir, skriflegar og annað, að það er auðvitað þannig að þessar mismunandi leiðir sem við höfum hér í þinginu skipta mjög miklu máli. Það er eitt að senda inn skriflega fyrirspurn til að fá upplýsingar innan úr ráðuneytunum en allt annað að eiga hér í beinum pólitískum samskiptum við ráðherra sem þá mæta. Svo verð ég að árétta það að einmitt vegna þess að ráðherrarnir eru tólf þá ætti ekki að vera flókið að sýna þinginu þá virðingu að manna þó a.m.k. lágmarkið, setja þrjá af tólf á hverjum tíma inn í þennan lið, sem skiptir stjórnarandstöðuna gríðarlega miklu máli og er engin ofrausn. Mér finnst að allir, bæði þingmenn og ráðherrar, ættu að hafa það í huga.