152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Hæstv. forseti. Áðan nefndi forseti þær leiðir sem þingmenn hafa aðrar en óundirbúnar fyrirspurnir til að ná áheyrn ráðherra. Ég velti fyrir mér eftir að hafa heyrt útskýringar forseta, hvort við þingmenn þurfum að leggjast á sveif með forseta að ná áheyrn þessara sömu ráðherra, því að fram er komið að þegar í ljós kom að einungis tveir af tólf manna ríkisstjórn, sem er nánast Íslandsmet í ráðherrafjölda, sæju sér fært að mæta, hafi forseti bankað upp á hjá forsætisráðherra og spurt hvort ekki væri hægt að bæta úr þessu og fengið bara nei. Þetta er vanvirðing við forseta, þetta er vanvirðing við Alþingi og þetta er eitthvað sem ég vona að fleiri en bara við í stjórnarandstöðunni stöndum með forseta að vinna bót á.