152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

hlutdeildarlán og húsnæðisverð.

[10:55]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Fyrr í þessum mánuði kom út enn ein skýrslan í Bretlandi um hlutdeildarlán sem þar eru veitt og eru fyrirmynd slíkra lána hér á landi. Í skýrslunni kom fram að fyrirkomulagið hefði þrýst upp íbúðaverði í Bretlandi og væri ekki góð nýting á skattfé. Nýta hefði átt fjármunina sem lagðir voru í þau til að byggja upp húsnæði á félagslegum grunni. Beita sér frekar á framboðshliðinni en eftirspurnarhliðinni. Markmið stjórnvalda í húsnæðismálum þarf bæði að vera að veita fólki öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði og stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Vandinn við hlutdeildarlán ríkisstjórnarinnar er að verð á íbúðum sem falla undir úrræðið eltir markaðsverð og ef húsnæðisverð rýkur upp, sér í lagi umfram byggingarkostnað, skapast pressa á að hækka líka hámarksverðið sem ríkið setur í hlutdeildarlánin, annars leita verktakar annað. Inngrip stjórnvalda á húsnæðismarkaði virka ekki ef þau kynda undir verðhækkun í stað þess að halda aftur af henni. Íbúðaverð hér fer enn hækkandi og nú er ekki hægt að fá íbúð í hlutdeildarlánakerfinu á höfuðborgarsvæðinu, enda er farið að þrýsta á að hækka viðmiðin. Kostnaðurinn við þau er þó nú þegar um 4 milljarðar kr. á ári.

Fyrr í vikunni lagði Samfylkingin fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin tvöfaldi framlög til almenna íbúðakerfisins. Slík tvöföldun myndi kosta u.þ.b. 3,5 milljarða kr., eða svipaða upphæð og fer í hlutdeildarlánin núna. Kosturinn við almenna íbúðakerfið er að það stuðlar að framboði, íbúðir eru byggðar af óhagnaðardrifnum félögum, og þrýstir því ekki upp húsnæðisverði og geta einmitt skapað stöðugleika. Finnst hæstv. ráðherra koma til greina að nýta það fé sem nú er sett í hlutdeildarlánakerfið til að tvöfalda uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu?