152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

hlutdeildarlán og húsnæðisverð.

[11:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er eitt að koma hingað upp og hreykja sér af því að mæta í fyrirspurnirnar, annað er svo að svara þá því sem að mönnum er beint í staðinn fyrir að drepa málum á dreif. Í svari hæstv. ráðherra sjálfs við fyrirspurn hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar kemur ágætlega fram að þessar skýringar eru bara úr lausu lofti gripnar. Ráðherra sagði líka að þessi hlutdeildarlán hefðu reynst vel í Bretlandi. Ég var að vitna í nýlega skýrslu sem er ein af fjölmörgum um hlutdeildarlánakerfið þar sem segir bara að þetta virki eiginlega frekar sem niðurgreiðsla til verktaka og fjármögnunaraðila en fyrir þá sem þurfa raunverulega á því að halda. Ég studdi þetta síðasta vor til reynslu en ég vil spyrja hæstv. ráðherra að fenginni reynslu: Eigum við ekki frekar að nýta fjármunina betur? Útvega fleiri íbúðir fyrir það fólk sem þarf á því að halda og skapa um leið til lengri tíma stöðugleika á markaðnum í staðinn fyrir að búa til þetta skammtíma „kvikk fix“, sem Framsóknarflokkurinn virðist alltaf vera svo hrifinn af, sem kyndir undir öllum verðhækkunum?