152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

stuðningur við nýsköpun.

[11:11]
Horfa

vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og tek auðvitað undir með henni að það hefur mikið verið að gerast í nýsköpunarumhverfi á Íslandi og mikilvægt að þessi kerfi virki sem allra best. Nýr stjórnarsáttmáli kveður á um að þessar endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar t.d. verði framlengdar en líka að farið verði yfir framkvæmd þeirra og eftirlit sérstaklega. Tímabundin hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna kostnaðar sem fellur til við rannsóknir og þróun verður síðan gerð varanleg.

Varðandi eftirlitið og framkvæmd þessarar endurgreiðslu er unnið að því að fá óháðan aðila til að framkvæma áhrifamat á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar, bæði hvað varðar vöxt og starfsemi nýsköpunarfyrirtækja og einnig hvað varðar samfélagsleg áhrif og samkeppnishæfni Íslands, hvar við getum gert betur í alþjóðlegu samhengi, en einnig um þetta eftirlit sem mikilvægt er að hafa svo þetta gagnist þeim sem raunverulega eru í rannsókna- og þróunarfasa sem skiptir gríðarlega miklu máli að virki vel og hefur sannað sig á örfáum mánuðum. Við erum að sjá að fyrirtæki ákváðu vegna þessara breytinga allra sem urðu á umhverfinu á síðasta kjörtímabili að velja Ísland, að vera á Íslandi, sköpuðu hér störf, uxu gríðarlega mikið. Það er auðvitað afar mikilvægt að það kerfi haldi áfram að nýtast fyrirtækjum. Niðurstöður þessarar greiningar munu auðvitað nýtast í áframhaldandi umbætur, hvort sem það er þá að styrkja eftirlitið og tryggja að þetta nýtist þeim sem eru í rannsóknar- og þróunarverkefnum eða til að styðja regluverkið og gera það enn þá betra í alþjóðlegum samanburði.