152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

hálendisþjóðgarður.

[11:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil við þessa umræðu eiga orðastað við hæstv. innviðaráðherra Sigurð Inga Jóhannsson á grundvelli þess að hann er formaður stjórnarflokks í því ríkisstjórnarsamstarfi sem við búum við. Það vakti nokkra athygli undir lok síðasta kjörtímabils þegar meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar setti fram nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um hálendisþjóðgarð þar sem sagði, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur að til að ná slíkri sátt“ — varðandi það að innleiða sjónarmið um þjóðgarð á hálendinu — „þurfi að gefa málinu lengri tíma og mikilvægt sé að halda áfram að vinna að því í víðtæku samráði við alla hagaðila. Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að leggja fram nýtt frumvarp um málið sem verði byggt á þeirri vinnu sem hér hefur verið rakin.“

Það blasti við að þetta þýddi að ef stjórnarflokkarnir héldu áfram óbreyttu samstarfi yrði lagt fram nýtt mál um hálendisþjóðgarð. Síðan lesa menn og konur þessa lands stjórnarsáttmálann af mikilli samviskusemi og þar stendur, undir lið sem hefur yfirskriftina Við ætlum að setja loftslagsmálin í forgang, með leyfi forseta:

„Stofnaður verður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum í þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.“

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Þegar sagt er að stofnaður verði þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum þýðir það að öll þegar friðlýst svæði falli þar undir eða bara það að þegar friðlýst svæði komi til greina innan þjóðgarðsins?