152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

hálendisþjóðgarður.

[11:18]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og hann lýsti var það nokkuð ljóst að ef þessir þrír stjórnarflokkar myndu halda áfram samstarfi, sem þeir gerðu, myndi það kalla á að leyst yrði úr þeim ágreiningi sem þar var. Við Framsóknarmenn höfum til að mynda sett fram mjög skýra afstöðu til þeirrar hugmyndar sem hér var á síðasta kjörtímabili, að hún gengi allt of langt. Ég held að við höfum verið með einhverja tíu fyrirvara þar að lútandi, sjö sérstaka og þrjá til viðbótar við það. Þess vegna var alveg ljóst að þegar við settum saman nýja ríkisstjórn, og það var líka vitað að áframhaldandi hugur eins stjórnarflokksins væri á því að ljúka vinnu við einhvers konar þjóðgarð á hálendi Íslands, þá myndum við reyna að finna leiðir til þess í samræmi við samþykkt þingsins en líka í samræmi við stefnu hvers flokks fyrir sig sem við fórum með út í kosningar.

Hv. þingmaður lýsir því einmitt í textanum að talað sé um þegar friðlýst svæði og jökla og það er þá í tengslum við jökla. Það er þá fyrst og fremst í tengslum við Hofsjökul. Það eru svæði eins og Guðlaugstungur, það eru svæði eins og Kerlingarfjöll og svæði eins og Þjórsárver, sem eru kannski samfellt svæði í tengslum við Hofsjökul. Það eru svæði við Langjökul sem eru, ef ég man rétt, í Geitlandi og eru þá hin friðlýstu svæði. Það eru þessi þegar friðlýstu svæði. Á þeim liggja nú þegar fyrir ákveðnir skilmálar sem menn hafa undirgengist. Við höfum lagt áherslu á að þeir skilmálar haldi sér enda virðist vera nokkur sátt um þá meðal þeirra sem njóta útivistar og þeirra sem líta á að friðlýsingin sé hluti af frekari vernd hálendisins.