152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

vaxtabætur.

[11:23]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Hæstv. innviðaráðherra sagði í viðtali nýverið að vaxtabótakerfið hefði ekki virkað nógu vel. Ég held að það sé ekki djúpt í árinni tekið. Vaxtabætur hafa lækkað mikið undanfarin ár á meðan fasteignaverð hækkar viðstöðulaust langt umfram laun. Það felur í sér verulega kjaraskerðingu fyrir stóran hluta láglauna- og millitekjufólks. Hæstv. ráðherra sagði að ríkisstjórn legði áherslu á önnur stuðningsúrræði, eins og hlutdeildarlán, fyrstu kaupa lán og lög um almennar íbúðir. Samkvæmt úttekt Eflingar stéttarfélags gagnast þessi úrræði þó einungis litlum, afmörkuðum hópum í samanburði við þann mikla fjölda sem áður fékk vaxtabætur. Þegar mest var, árið 2011, fengu tæp 103.000 vaxtabætur, einungis 15.470 fengu vaxtabætur á árinu 2020, flestir á landsbyggðinni. Frá þeim tíma hafa því um 87.000 manns misst vaxtabætur sínar án þess að nokkuð komi í staðinn. Hærra fasteignamat skerðir, ásamt launatekjum, vaxtabæturnar og hafa því þessi skerðingarmörk engan veginn fylgt verðlagsþróun. Ég spyr því hæstv. innviðaráðherra hvort réttlætanlegt sé að taka fjármuni af fólki sem áður hafi gert sínar áætlanir, byggðar m.a. á því að fá greiddar vaxtabætur, til að greiða fyrir önnur úrræði fyrir aðra hópa. Telur ráðherra rétt að verið sé að bæta rétt hóps sem stendur illa á kostnað annars hóps sem einnig kann að standa illa?