152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

vaxtabætur.

[11:25]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða fyrirspurn. Fyrr í þessum fyrirspurnatíma var formaður Samfylkingarinnar að tala um að ákveðið úrræði sem er í dag, þessi hlutdeildarlán, væri fyrst og fremst að hans mati og einhverra annarra niðurgreiðsla til verktaka. Vaxtabætur hafa verið gagnrýndar harðlega fyrir að vera fyrst og fremst niðurgreiðsla til bankanna. Talsverð umræða var hér í þinginu fyrir nokkrum árum einmitt um að þetta væri jú fyrst og fremst einhvers konar afsökun, „alibí“, fyrir bankann að vera bara með nægilega háa vexti af því að ríkið borgaði síðan vaxtabætur á móti.

Þegar hv. þingmaður segir að menn hafi misst vaxtabætur og ekkert fengið í staðinn þá vil ég minna hv. þingmann á að það er talsverður munur á því vaxtastigi þegar vaxtabæturnar voru hvað hæstar og við dældum hér fjármunum úr ríkissjóði til að lækka þessa háu vaxtabyrði sem bankarnir hirtu eða fjármálastofnanir sem lánuðu til húsnæðiskaupa, og þeirri stöðu sem verið hefur hér á síðustu misserum þar sem vextirnir hafa verið umtalsvert lægri. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að dregið hefur úr þörfinni á vaxtabótakerfinu, vegna þess að það er miklu heiðarlegra og hreinlegri markaður þar sem vextirnir eru sanngjarnir og lágir og fólk situr við það borð og það gildir fyrir alla, frekar en að við séum að búa til eitthvert kerfi.

Ég vil líka bæta við að hver einasti aðili sem hefur skoðað svona kerfi, hvort sem það er OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða Alþjóðabankinn, hefur skoðað skattkerfið á Íslandi og sagt: Hér er margt ágætt, einfalt kerfi og við skiljum þetta og þetta, en hvað í ósköpunum er þetta vaxtabótakerfi sem kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í þetta kerfi og breytir öllum jöfnuði og breytir jaðarsköttum o.s.frv.? (Forseti hringir.) Þess vegna hef ég sagt: Skoðum vaxtabótakerfi. (Forseti hringir.) Notum hugsanlega fjármunina í betri kerfi en það kerfi. Það er skoðun mín og það er eitt af því sem við munum skoða.