152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

vaxtabætur.

[11:28]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. En ef þetta væri svona gæti þessi ríkisstjórn bara hætt öllum stuðningsúrræðum ef það eru alltaf einhverjir aðrir sem eru að hirða þetta. En það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að forgangsraða almannafé. Þessar bætur, líkt og önnur stuðningsúrræði, eiga að vera til staðar fyrir þá sem þurfa á þeim að halda. Vaxtabæturnar áttu að taka við af félagslega húsnæðiskerfinu þegar það var lagt niður árið 1999 en nú hafa greiddar vaxtabætur rýrnað um 90% frá árinu 2011. Með þessari þróun og tilkomu þeirra úrræða sem ríkisstjórnin segir að hafi komið í staðinn hefur átt sér stað tilfærsla fjármuna frá einum lágtekjuhópi til annars.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna á tilfærslan sér ekki stað frá þeim hópum sem hafa mest á milli handanna, stórútgerðum og fyrirtækjum og stóreignafólki, til þeirra sem mest þurfa á að halda? Hvers vegna er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þessi?