152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

vaxtabætur.

[11:29]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er ekki viss um að ég nái að fylgja hv. þingmanni í hans rökútleiðslu. En ég býst við að við séum nokkuð sammála um það, alla vega að við Framsóknarmenn, og ég vona að Viðreisnarfólk sé það líka, að við notum skattkerfið til tekjujöfnunar, ekki bara að taka einhvern hluta, og þar af leiðandi getum við notað þá fjármuni sem koma inn til ríkisins sem hluti af þeirri tekjujöfnun til að styðja við þá sem þess þurfa, m.a. í húsnæðiskerfinu. Það er margt sem bjátar á þar og við ræddum það aðeins hér fyrr í dag. Við leggjum nú talsvert mikla vinnu í það að átta okkur á því hvernig við getum hjálpað til á þeim vettvangi til að tryggja að við getum komið til móts við þá stóru hópa sem þurfa á því að halda í húsnæðiskerfinu. Ég held að lausnin sé klárlega ekki að endurvekja vaxtabótakerfið. Það er leið sem var notuð á sínum tíma en ég held að hún hafi ekki endilega virkað vel. En við höfum verið að þróa ýmis önnur úrræði sem ég vil gjarnan fá að taka hér upp til samtals við þingið þegar við komum lengra inn í veturinn.