152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

um fundarstjórn.

[11:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fór aðeins að grennslast fyrir um fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem ég lagði fram 3. desember sl. Nú er það svo að ráðherrar hafa 15 daga til að svara fyrirspurnum sem þessum og óska ég eftir að hæstv. forseti, sem ræddi fyrr í dag um að þingmenn hefðu fjölmargar leiðir til að spyrja ráðherra spurninga, aðrar en að mæta í óundirbúnar fyrirspurnir, liðsinni mér við að fá svör við þessum spurningum. Nú er ráðherra ekki bara búinn að tvöfalda þann tíma sem hann hefur til að svara heldur rúmlega það, er líklega kominn um fimm vikur fram yfir tímann sem hann hefur. Ég óska eftir því að forseti reyni, þar sem við erum hér í upphafi þings eftir tveggja mánaða samningaviðræður stjórnarflokkanna, að koma þingstörfunum í fastar skorður, að leyfa ráðherrum ekki að komast upp með hvað sem er, eins og t.d. ítrekaða fjarveru og að svara ekki eðlilegum fyrirspurnum þingmanna, sem eru hér í störfum fyrir almenning í landinu.