152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[11:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Er ekki einfaldara að vera bara með eitt fall sem lýsir þróuninni í staðinn fyrir að vera með þennan tröppugang sem skilur fólk eftir ef það rétt nær ekki inn eða dettur út fyrir á öðrum hvorum endanum? Bara einfalt fall, línulegt eða lógaritma, eða það fall sem stjórnvöld teldu réttlætanleg í því tilfelli. Svo maður taki kannski aðeins tillit einfaldleikans í þessu þá erum við einmitt að glíma við aðstæður síðan í sumar þegar felldar voru úr gildi allar takmarkanir 25. júní, svo erum við komin í breytingar 25. júlí, 28. ágúst, 15. september, 20. október, 10. nóvember, 13. nóvember, 23. og svo aftur 23. þegar veittar voru aukaundanþágur og 15. janúar. (Forseti hringir.) Við förum fram og til baka í breytingum sem eru flóknar (Forseti hringir.) og ef það væri hægt að gera þetta einfaldara væri það vinsamlega þegið.