152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[11:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Það er auðvitað áhyggjuefni. Fyrst vil ég segja að í stöðunni eins og hún er verðum við að horfa til þess að styðja við veitingahúsin sem standa í rekstri en á einhverjum tímapunkti verða stjórnvöld að spyrja sig að því hversu lengi sé réttlætanlegt að láta veitingamenn landsins bera hallann af því að það sé mat yfirstjórnar Landspítalans og að því er virðist sóttvarnalæknis að spítalinn ráði ekki við verkefni sem Covid-faraldurinn færir honum. Þetta er ekki sanngjarnt í neinu samhengi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hver afstaða ráðherrans er til þess að við bara hættum þessari vitleysu. Það er ekki boðlegt að skilja hér 1.000 fyrirtæki í veitingarekstri eftir í þeirri stöðu að vera undirorpin því að vera hálfslegin af eða ekki reglulega. (Forseti hringir.) Það stendur enginn í rekstri við þessar aðstæður til lengri tíma.