152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[11:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Síðastliðinn mánudag samþykkti þetta þing á einum degi frumvarp til að heimila aðilum í veitingarekstri að fresta gjalddögum opinberra gjalda og þar var eitt af skilyrðunum, með leyfi forseta:

„Ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2022 eða úttekt eigenda innan ársins 2022 fer umfram reiknað endurgjald þeirra verður ekki fallist á frestun greiðslna samkvæmt þessu ákvæði.“

Þetta skilyrði fannst mér mjög mikilvægt að hafa í frumvarpinu enda áttu ekki að taka við ríkisstuðningi ef þú býrð svo vel að geta greitt þér út arð. Þetta skilyrði er hins vegar hvergi að finna í þessu frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra, sem raunar er ekki hér til að svara fyrir það annan daginn í röð. En ég spyr staðgengil hans: Hvers vegna var ákveðið að sleppa þessu mikilvæga skilyrði úr þessu frumvarpi?