152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[12:15]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er gott frumvarp svo langt sem það nær, en við getum gert það enn betra með ákveðnum breytingum í meðförum þingsins. Í greinargerð frumvarpsins koma fram þær upplýsingar að ef leiðrétt er fyrir árstíðasveiflu hafi nóvembermánuður í raun verið enn verri hjá rekstraraðilum í veitingarekstri en desember. Og eins í menningargreinum. Umræðan um þetta var náttúrlega í hámæli núna í byrjun desember. Þá sagðist hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ætla að hafa hraðar hendur, grípa til sértækra aðgerða. En svo gerðist bara ekkert í margar vikur. Nú erum við loksins með frumvarp. Það tekur til mjög afmarkaðs hluta atvinnulífsins, aðeins til veitingageirans. Við verðum að gera þá kröfu að hingað inn í þingið komi mjög fljótlega frumvarp sem tekur til menningargeirans og sviðslista. Það er a.m.k. lágmarkskrafa að fólk í þessum greinum og fleirum fái skýr svör um það hvað nákvæmlega stendur til að gera fyrir það núna þegar t.d. er búið að fella úr gildi heimild til að halda fjöldasamkomur þar sem gestir hafa tekið hraðpróf.

Það sem er kannski sérstaklega jákvætt við það frumvarp sem við ræðum hérna er að tekjufallsþröskuldurinn sem skilyrðir stuðninginn er talsvert lægri en í viðspyrnustyrkjunum. Úrræðið nær þannig til fleiri aðila. Þannig er ljóst að með þessu úrræði munu mörg fyrirtæki í veitingarekstri í fyrsta sinn í rauninni frá því að faraldurinn hófst fá beinan stuðning úr ríkissjóði vegna heimsfaraldurs og sóttvarnatakmarkana.

Í frumvarpinu er grunnhugsunin sú að viðhalda lágmarksstarfsemi og varðveita viðskiptasambönd, koma í veg fyrir að lífvænleg fyrirtæki fari á hliðina með tilheyrandi efnahagslegum skaða. Fram kemur í greinargerðinni að ekki sé talin ástæða til að framlengja almennan stuðning við atvinnugreinar og fyrirtæki, slíkur stuðningur geti hindrað færslu framleiðsluþátta frá fyrirtækjum sem eru í grunninn óarðbær og þannig haldið aftur af framleiðni í hagkerfinu. Gott og vel. Þessi áhersla má þó ekki verða til þess að vel rekin fyrirtæki, sem hafa alla burði til að sækja fram um leið og takmörkunum verður aflétt, falli milli skips og bryggju, t.d. fyrirtæki sem eru kannski ekki í veitingarekstri sjálf en eiga allt sitt undir því að fjöldasamkomur geti farið fram. Hér þurfum við að feta gullinn meðalveg milli hins almenna og hins sértæka, nýta fjármuni vel, ekki t.d. dæla þeim í þá hluta hagkerfisins sem þegar eru þandir, eins og var t.d. gert með framlengingu úrræðisins Allir vinna. En um leið þurfum við að gæta jafnræðis milli atvinnugreina, gæta þess að fyrirtæki og atvinnugreinar séu ekki skildar eftir með óréttlátum hætti.

Eitt sem ég hnýt um í frumvarpinu, og vona að við getum hér í meðförum þingsins fundið farsæla lausn á án þess að fara með það mikið í einhverjar pólitískar skotgrafir, er að það er í raun ákveðið ójafnvægi í meðhöndlun þeirra fyrirtækja annars vegar sem voru stofnuð áður en heimsfaraldurinn skall á, og svo hinna, veitingastaðanna sem opnuðu rétt eftir að heimsfaraldur barst til landsins. Fyrri hópur fyrirtækjanna á rétt á styrk ef tekjur í viðkomandi mánuði voru 20% lægri en tekjur í sama almanaksmánuði árið 2019. En hjá seinni hópnum er viðmiðunartíminn hins vegar tímabil þegar harðar sóttvarnaráðstafanir voru alla jafna við lýði og þegar það þurfti að skella í lás og létta á víxl þegar ferðamannafjöldinn dróst alveg stórkostlega saman. Við þekkjum hvernig ástandið var í atvinnulífinu á þessu tímabili þótt auðvitað hefðu komið þarna blómlegar vikur inn á milli. Þetta ójafnvægi sem ég var að lýsa er ekki sanngjarnt og ég held við hljótum öll að geta verið sammála um það. Þetta setur suma veitingastaði í alveg afleita samkeppnisstöðu. Ég vona að við getum bara lagað þetta hérna í meðförum þingsins.

Eins og ég hef sagt þá er þetta bara besta mál, þetta frumvarp, svo langt sem það nær. En það sem ég var að lýsa er eitthvað sem við hljótum að geta tekið til skoðunar hérna í þinginu og gert bragarbót á.

Staðgengill hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði hér í ræðum í dag að ríkisstjórnin muni standa með atvinnulífinu í gegnum faraldurinn og yfir það sem hún vonar að verði síðasti hjallinn. Í ljósi þessara yfirlýsinga finnst mér eiginlega óboðlegt að ráðherrar svari því ekki bara svolítið skýrt hvort og þá hvenær og í hvaða mynd það standi til að endurvekja hlutabótaleiðinna. Þá gætu rekstraraðilar hagað áætlunum sínum næstu vikur og mánuði í samræmi við það. Þetta frumvarp, eins og ég gaf í skyn hérna fyrr í ræðunni, held ég að hafi komið fram svona u.þ.b. mánuði of seint. Því var útbýtt 18. janúar, fimm vikum eftir þessar yfirlýsingar fjármálaráðherra sem ég vísaði til. En þrátt fyrir þennan drátt virðist frumvarpið ekki hafa verið lagt fram alveg fullbúið vegna þess að núna í dag, tveimur dögum eftir að frumvarpinu var útbýtt á Alþingi, þá er hér staðgengill hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í rauninni að biðla til þingsins um að gera ákveðnar breytingar á frumvarpinu. Allt vekur þetta spurningar um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. En ég hlakka til vinnunnar sem er fram undan í efnahags- og viðskiptanefnd og vona að málið fái vandaða meðferð hérna. Við þurfum að gera þetta tiltölulega hratt en við þurfum líka að gera þetta vel.