152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér skýrslu heilbrigðisráðherra um sóttvarnir til upplýsinga um stöðuna vegna heimsfaraldurs Covid-19 í samræmi við ákvæði sóttvarnalaga þar að lútandi um þróun faraldursins. Ég mun setja fram mál mitt í tímalínu frá síðustu skýrslu og taka mið af þróun faraldursins frá þeim tíma samhliða stöðunni í heilbrigðiskerfinu.

Þann 9. desember sl. gerði ég grein fyrir þróun faraldursins frá því að þessi bylgja byrjaði í raun, í júlí, en síðasta skýrsla hafði verið flutt í júní. Frá því í desember hefur ýmislegt breyst og eins og við þekkjum hefur nýtt afbrigði, ómíkron-afbrigði, tekið við af delta-afbrigðinu og er mun meira smitandi og hefur í raun gerbreytt viðfanginu og kallað á breytingar á sóttvörnum. Við höfum sem fyrr fylgt í meginatriðum ráðleggingum og tillögum sóttvarnalæknis. Það hefur reynst farsælt og ég legg áherslu á að engin breyting hefur orðið á því, það hefur reynst farsælt í gegnum þennan faraldur til tveggja ára að fylgja okkar færasta fólki og byggja ráðstafanir á vísindum og bestu þekkingu hverju sinni.

Frá þeim tímapunkti sem ég flutti hér skýrsluna 9. desember höfðu verið í gildi frá 13. nóvember almennar samkomutakmarkanir sem miðuðu við 50 manns og hafði tekist að tempra fjölda smita þann tíma. En greina mátti breytingar á þessari bylgju um það leyti sem ég flutti hér síðast skýrslu og lagði sóttvarnalæknir til breytingar á almennum takmörkunum úr 50 manns í 20, sem tóku gildi 23. desember. Þær ráðstafanir byggðu á því að fjöldi smita var farinn að aukast verulega og smithæfni hins nýja ómíkron-afbrigðis mun meira. Með mun meiri útbreiðslu smita fjölgaði hratt þeim sem fóru í einangrun og sóttkví, sem eru okkar helstu sóttvarnaúrræði, og það var farið að höggva skörð í ýmiss konar starfsemi og einnig heilbrigðisþjónustuna, ýmiss konar félagslega þjónustu og fleira, þannig að róðurinn var tekinn að þyngjast. Landspítali – háskólasjúkrahús var færður upp á neyðarstig þann 28. desember. Þá voru u.þ.b. 150 starfsmenn frá vegna þess að þeir voru í einangrun. Þarna og á fyrstu dögum janúarmánaðar hélt ráðherranefnd um samræmingu mála eina sjö samráðsfundi um stöðu faraldursins og heilbrigðiskerfisins, sóttvarnir og mannréttindi, sóttvarnaaðgerðir og bólusetningar, velferðarkerfið, efnahagsmál, atvinnulíf og vinnumarkaðsmál.

Þrátt fyrir að hafa að tillögum sóttvarnalæknis létt á einangrun um þrjá daga og sóttkví þar sem þríbólusettum er heimilað með gát að sækja vinnu, eru í dag um 10.637 einstaklingar í einangrun og 12.438 skráðir í sóttkví.

Þann 5. janúar er staðan dregin saman og kemur fram í minnisblaði sóttvarnalæknis að spítalainnlagnir séu að líkindum 30–50% fátíðari. Þá sé verið að skoða þróunina m.a. í Danmörku. Það megi hins vegar búast við fjölgun innlagna vegna mikillar útbreiðslu smita. Vegna álags á heilbrigðiskerfið og ýmsa starfsemi lagði sóttvarnalæknir til óbreyttar sóttvarnaaðgerðir innan lands en breytingar á sóttkví. Jafnframt lagði hann áherslu á að huga þyrfti að harðari takmörkunum með tilliti til þróunar til að hefta enn frekari útbreiðslu. Ljóst var að næstu dagar, og þá miða ég við 5. janúar, yrðu mjög krítískir um þróunina fyrir alla starfsemi í landinu og ekki síst heilbrigðiskerfið og spítalann, og var farið að reyna verulega á. Allan tímann hefur verið unnið þétt og í nánu samstarfi við spítalann og alla aðila í heilbrigðisþjónustu við að finna viðbótarrými til að auka flæði á spítalanum og tryggja mönnun. Ég vil segja hér, virðulegur forseti, að þetta hefur verið gert með því frábæra fólki starfsfólki sem hefur haldið uppi þjónustunni með því aukaálagi sem þessum faraldri fylgir í tvö ár. Við eigum seint að þreytast á að hrósa fyrir það.

Þann 10. janúar kemur sameiginlegt minnisblað frá landlækni og sóttvarnalækni þar sem staðan er aftur metin í ljósi síðustu daga þá í heilbrigðiskerfinu, í sóttvarnaaðgerðum og líklegri þróun hérlendis og þeirra aðgerða sem við þurfum að grípa til. Þetta finnst mér mikilvægt að draga hér fram í tímalínu til að varpa ljósi á mikilvægi þessa þétta samtals sem er á milli stofnana okkar og ríkisstjórnar og svo í samtali við Alþingi hér í dag, virðulegi forseti.

Á þessum tímapunkti lagði sóttvarnalæknir áherslu á að þrátt fyrir hertar takmarkanir hefði ekki tekist að gera meira en að hemja smit. Dagleg smit væru á bilinu 1.000–1.200. Þann 13. janúar berst svo minnisblað frá sóttvarnalækni en neyðarstigi almannavarna er lýst yfir þann 11. janúar með tilliti til heilbrigðiskerfisins alls til að samhæfa vinnubrögð. Þá erum við farin að kalla til starfsfólk af öðrum stofnunum og úr sjálfstætt starfandi geiranum til að koma og létta undir. Þarna rekur sóttvarnalæknir þróunina og stöðuna á spítalanum. Þann 12. janúar, á þeim tímapunkti, voru 45 sjúklingar inniliggjandi á Landspítala vegna Covid-19 og þar af sjö á gjörgæsludeild og fjórir í öndunarvél. Á þessum tíma er verið að vinna með spálíkön sem voru með innlagnarhlutföll sem voru blanda af delta-veirunni og ómíkron-veirunni. Við þekkjum það að ýmislegt hefur breyst frá því í upphafi þessarar bylgju með þessu nýja afbrigði og fjölda smita og því meiri óvissa um fyrirsjáanlegan árangur aðgerða. Því lagði sóttvarnalæknir til þrjá valkosti en vísaði í reynslu fyrri aðgerða. Að tillögum sóttvarnalæknis var gripið til þess að fara með almennar fjöldatakmarkanir úr 20 manns í tíu en reglur um skólastarf yrðu áfram óbreyttar og í samræmi við útgefna skólareglugerð. Þessar reglur tóku gildi síðastliðinn laugardag.

Í gær, 19. janúar, að tillögu sóttvarnalæknis, gerðum við breytingar á reglum um sóttkví og einangrun. Þeir sem eru metnir af rakningarteymi með óverulega útsetningu fyrir smiti hafa heimild, með því að fara varlega í sjö daga, að losna úr slíkri gát án þess að þurfa að fara í sýnatöku. Þetta byggir á þeirri staðreynd að u.þ.b. 1% af þeim sem sætt hafa sóttkví hafa reynst smituð, og þetta eru aðallega börn, mjög stór hluti er börn og unglingar. Þetta mun létta verulega á sýnatöku barna. Þá er einstaklingum í einangrun veitt rýmri heimildir til útiveru.

Allan tímann hefur markvisst verið unnið að því að styrkja Landspítala og getu hans til að mæta miklu álagi. Það hefur tekist með mjög góðri samvinnu og fjölmörgum aðgerðum, tilflutningi og viðbótarvinnuframlagi þannig að það sé tryggt hvern dag að við ráðum við stöðuna og hefur það tekist afar vel. En nú hefur staðan aðeins þyngst á spítölum þar sem eru um 200 manns í einangrun þannig að það vantar á gólfið. Við höfum bætt það upp með því að semja við aðila í sjálfstætt starfandi geira til að koma inn og hlaupa undir bagga með starfsfólki spítalans. (Forseti hringir.)

Ég held ég hafi farið yfir flest það sem ég ætlaði að segja hér í upphafsskýrslu, forseti, en get bætt við síðar í andsvörum.