152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir innleggið og spurningarnar hér. Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á í upphafi sinnar ræðu, það er bjartara yfir og það höfum við frá okkar færasta vísindafólki sem vinnur nú jöfnum höndum að því að greina gögn og tölfræði. Það er ljóst að innlagnarhlutfallið er að lækka samhliða því sem ómíkron verður stærra í þessu mengi og meðallegutími er ólíkur eftir aldurshópum. Þetta er lagskipt eftir aldurshópum og núna þessa dagana er verið að vinna með þau gögn inn í breytingar á spálíkaninu. Eins og hv. þingmaður nefndi eru bjartari tónar. Út frá þeim gögnum sé ég alveg fyrir mér að við getum tekið skynsamleg skref að tillögu sóttvarnalæknis og að við getum dregið úr almennum sóttvarnaráðstöfunum. En helstu sóttvarnaráðstafanirnar höfðu auðvitað verið einangrun og sóttkví. Það eru sterkustu vopnin í að hemja smit.

Ég veit að sóttvarnalæknir er að skoða gögnin núna ásamt fleiri vísindamönnum, bæði þeim sem vinna við Covid-göngudeildina og sinna meðferð á sjúklingum inni á spítalanum. Það sem hefur aðeins breyst í þessu er að af því veiran er svo smitandi þá kom upp smit inni á spítalanum. Það flækir aðeins verkefnið. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni í því að við eigum að fara yfir allar þær aðgerðir. Þessi faraldur hefur í mínum huga í raun afhjúpað tvennt; annars vegar mikinn styrk og hversu frábært starfsfólk við eigum í heilbrigðisþjónustu og hversu öflugur á mörgum sviðum Landspítalinn er. Ég held að ef það er eitthvað tvennt sem maður getur séð af gögnum að hafi virkað mjög vel hér í samanburði annars staðar er það útsjónarsemi Covid-göngudeildar í að koma í veg fyrir innlagnir og sterk bólusetningarstaða. Við eigum að læra af þessu. En þetta hefur um leið afhjúpað veikleika: Við erum undirmönnuð í heilbrigðisþjónustu. Það er eitt af stóru áskorununum inn í framtíðina, eins og við hv. þingmaður áttum samtal um hér fyrir tveimur dögum. Það er starfshópur sem hefur allan tímann verið bæði í heilbrigðisráðuneytinu og í félagsmálaráðuneytinu — og í félagsmálaráðuneytinu hefur þetta verið vaktað með áhrif á þessa hópa sem hv. þingmaður kom inn á.