152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég geri ráð fyrir að hv. velferðarnefnd muni fylgja eftir spurningunum um áhrif á fatlað fólk. Ákall um aðkomu þingsins að ákvörðunum um sóttvarnir og afleiðingar þeirra er háværara nú en fyrr í faraldrinum. Getur hæstv. ráðherra ekki tekið undir það með mér að það væri góð blanda, í aðkomu framkvæmdarvalds og þings, að ráðherra færi að ráðleggingum sóttvarnalæknis og um leið yrði tekin umræða á vettvangi þingsins um hvers vegna það sé nauðsynlegt og hvernig löggjafinn og fjárveitingavaldið þurfi að bregðast við með mótvægisaðgerðum? Ef ráðherra færi ekki eftir tillögum sóttvarnalæknis þyrfti hann að gera grein fyrir því í þinginu og færa rök fyrir því hvers vegna hann færi að eigin tillögum eða tillögum einstakra hagsmunaaðila, svo dæmi sé tekið.

Okkur hefur í þessari löngu baráttu við veiruna alltaf farnast best þegar við höfum farið að ráðleggingum sóttvarnalæknisins okkar og það hefur sem betur fer oftast verið gert. Við Íslendingar eigum frábæran sóttvarnalækni sem hefur ráðið okkur heilt öfgalaust og af fagmennsku. Hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra hefur þó á stuttum starfstíma vikið frá tillögum hans og veitt undanþágur. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að það hafi verið mistök hjá heilbrigðisráðherra á síðasta kjörtímabili að fara of oft að ráðum sóttvarnalæknis um sóttvarnir. Telur hæstv. ráðherra að hagsmunir einstakra atvinnugreina hefðu oftar á síðasta kjörtímabili átt að ganga framar ráðum sóttvarnalæknis í þeim anda sem hann sjálfur hefur ákveðið á stuttum starfstíma?