152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:52]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferðina. Þegar við ræddum hér saman síðast var ég í hópi fjölmargra þingmanna sem kallaði eftir meiri og virkari aðkomu löggjafans að ákvörðunum um sóttvarnaaðgerðir. Það er skemmst frá því að segja að síðan þá hafa verið lagðar verulega þungar takmarkanir á fólk og fyrirtæki án nokkurrar aðkomu þingsins. Það er ámælisvert eftir tæplega tveggja ára glímu við þennan vanda. Og talandi um tvö ár þá höfum við í bráðum tvö ár lifað hér eins og eftir tveggja til þriggja ára plani. Það gengur ekki lengur. Við þurfum að horfast í augu við þær vondu fréttir að veiran er komin til að vera, en við megum líka hafa augun opin fyrir þeirri stórgóðu þróun að hún er miklu hættuminni en hún var áður og að með bólusetningu, meðhöndlun og vægari afbrigðum er staðan allt önnur og betri. Það er löngu tímabært að ríkisstjórn og þing taki að sér sína lögboðnu og lýðræðislegu skyldu og taki forystu í því að leiða íslenskt samfélag út úr þessum ógöngum. Hlutverk og forysta sóttvarnalæknis og þríeykisins var ómetanlegt í upphafi faraldurs, en það var alltaf vitað að það yrði ekki einfalt að taka völdin aftur inn á svið stjórnmálanna. Það er hins vegar óhjákvæmilegt og það verður að gerast ekki seinna en núna. Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra sé sammála því.

Í bráðum tvö ár hafa takmarkanir verið lagðar á ýmist til að vernda heilbrigðiskerfið, til að halda niðri smittölum, til að halda niðri innlögnum, til að bregðast við óvissu. Engar viðmiðanir hafa lifað lengur en nokkra daga eða vikur, jafnvel ekki milli ríkisstjórnarfunda í sömu viku. Vegna gjörbreyttrar stöðu faraldursins virðist mikill meiri hluti bólusettra Íslendinga lifa í ótta, ekki við að smitast af Covid heldur við að lenda í sóttkví eða einangrun.

Af því að hæstv. heilbrigðisráðherra verður tíðrætt um margumtalað markmið um að standa vörð um líf og heilsu landsmanna má ég til með að minnast aftur á börnin okkar og ungmenni í þessu samhengi. Ég kem betur að því í seinni ræðu.

Að lokum minni ég hæstv. heilbrigðisráðherra aftur á að það er samfélagsleg skylda okkar að vernda þá sem eru viðkvæmari og það eru ekki bara þeir hópar sem eru viðkvæmari fyrir Covid-smiti. Það er líka fólk með fíknisjúkdóma sem hefur ekki haft aðgengi að lífsbjargandi meðferð og AA-fundum vegna takmarkana. Það er líka fólk sem glímir við andlega erfiðleika og er enn viðkvæmara fyrir einangrun og það eru líka börnin okkar. Hafa þessir viðkvæmu hópar e.t.v. gleymst á þessum krefjandi tímum?